Þjóðarskömmin Jón Kalman Stefánsson skrifar 31. ágúst 2009 06:00 Þann 27. júlí síðastliðinn skýrði Morgunblaðið frá því, á forsíðu, að þróunarframlög Íslands yrðu skorin umtalsvert niður, og að þau yrðu langt fyrir neðan viðmið ESB. Nokkrar vikur hafa nú liðið og ég hef varla séð nokkur viðbrögð við þessari frétt, annaðhvort er flestum hér á Íslandi sama um þróunaraðstoð, eða þá að fréttin hefur drukknað í endalausum tíðindum af gjaldþrotum, Icesave, skuldum Íslands, fjármálamönnum með sviðna samvisku - ef þeir hafa þá samvisku. Framlag Íslands til þróunarríkja hefur ætíð verið vel undir því sem um hefur verið samið á alþjóðavettvangi, og samt höfum við verið í hópi ríkustu þjóða. Hvað skyldi það segja um hjartalag okkar? Ísland og Marshall-aðstoðinGetur verið að eyjabúar eigi erfiðara með að skilja aðrar þjóðir, eigi erfiðara með að setja sig í spor annarra? Ísland var eitt þeirra ríkja sem þáðu Marshallaðstoð frá Bandaríkjunum eftir síðara stríð, sú aðstoð var hugsuð fyrir þau lönd sem höfðu farið illa út úr stríðinu. Við misstum vissulega sjómenn, en sluppum vel miðað við aðrar þjóðir, svo ekki sé meira sagt - við græddum nefnilega á stríðinu. En þáðum þrátt fyrir það styrk ætlaðan stríðshrjáðum þjóðum, og sá styrkur gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu landsins eftir stríð.Ég veit ekki hvernig eða hvort fólk réttlætti þennan styrk sem ætlaður var ríkjum til að byggja upp hrundar borgir, en lagðist hér ofan á þann gróða sem við höfðum haft af hersetu Breta og Bandaríkjamanna. Hvernig gátu Íslendingar þegið styrkinn og horft um leið yfir rústir Evrópu - heyrðist ekkert í samviskunni? Eða töldum við okkur eiga svo bágt að það þyrfti enga réttlætingu við? Erum við kannski fljótari en aðrar þjóðir að vorkenna okkur sjálfum, gera of mikið úr vandamálunum, og þá vegna þess að þau eru það eina sem við þekkjum - við eigum enga nágranna sem við getum borið okkur saman við. Þjáningar annarra of fjarlægar fréttir? Munað eða mannslífOg er það ástæðan fyrir því að við skerum nú verulega niður þróunaraðstoðina, sem var lítil fyrir, og án þess að nokkur mótmæli - dagar okkar eru svo þungbærir að við getum ekki rétt þeim fátækustu hjálparhönd? Ég veit það ekki. Ég veit þó að í grimmum og nauðsynlegum niðurskurði þarf að hafa eina óbifanlega reglu; þú skerð ekki niður þar sem líf eru í hættu. Hvort sem þau eru hér, suður í Afríku, austur í Asíu. Þú skerð ekki niður þróunaraðstoð, nema þú sért algjörlega bjargarvana, sjálfur sveltandi, varnarlaus, sviptur öllu.Við berjumst vissulega við atvinnuleysi og skuldir þessa mánuðina, miklar skuldir, og sumir eru að kikna, það eru erfiðir tímar á Íslandi, en líf okkar er ekki í hættu. Sumir ramba á barmi gjaldþrots, vonleysis, en þó eru líklega tugþúsundir sem hafa það gott, þjáning þeirra felst helst í því að neyðast til að losa sig við annan bílinn, þurfa að neita sér um ferð til útlanda, velja sér ódýrari rauðvín. Hér þurfum við tímabundið að skera niður munaðinn - sumstaðar út í heimi er enginn munaður að skera niður, einungis líf. Að hjálpa þeim sem þjástÍ frétt Morgunblaðsins frá því í lok júlímánaðar kom fram að niðurskurður til þróunarmála yrði bara tímabundinn - því Evrópusambandið gerir þá kröfu að minnst 0,35 prósent af þjóðartekjum aðildarríkja fari í málefnið. Með öðrum orðum; við hækkum framlagið þegar við erum skikkuð til þess.Það besta sem maðurinn gerir í þessu lífi er að hjálpa þeim sem þjást, hjálpa þeim sem ekkert eiga, nema þá vonleysið. Þróunaraðstoð er hugsuð til þess að koma þeim íbúum heimsins til hjálpar sem annars deyja, eða sogast inn í algera örbirgð. Það er þetta fólk sem við höfum brugðist síðustu áratugi, og jafnvel meðan allt lék í lyndi, fólk keypti flatskjá á fimmtudegi, sumarbústað á föstudegi, flaug til New York á laugardegi.Og jafnskjótt og harðnar á dalnum lækkum við framlagið og hækkum ekki aftur fyrr en við erum neydd til þess. Aðstoðum ekki af hjartahlýju, stolti, samúð, heldur útaf pólitík, hækkum framlagið svo okkur verði hleypt inn í sal siðaðra þjóða. Erum við ekki meiri en það? Hvort vegur þyngra?En ef íslensk stjórnvöld ætla að bregðast veröldinni, þá er það þjóðin sem á að stíga fram. Og það er hægt að gera með ýmsum hætti. Ég bendi til dæmis þeim þúsundum Íslendinga sem ekki berjast í bökkum, eru ekki að bogna undir skuldum, að fara inn á vefsíður Rauða Kross Íslands, Gjöf sem gefur, SOS barnaþorpin, ABC, Unicef og leggja þar sitt á mörkum. Ég heiti á þá Íslendinga sem geta til dæmis lagt fram tvöþúsund og fimmhundruð á mánuði, án þess að sjá fram á gjaldþrot, nú eða fimm þúsuund, en fyrir þá upphæð er hægt að kaupa barn undan þrældómi, að láta til sína taka. Því til eru staðir í veröldinni þar sem fimm þúsund krónur á mánuði geta skilið á milli lífs og dauða, öryggis og örbirgðar.Það eru þrengingar hér á Íslandi, en á tímum þrenginga eigum við fremur en áður að muna eftir þeim sem þjást talsvert meira en við getum gert okkur í hugarlund. Á tímum þrenginga sýnum við hjartalag okkar. Og hvort vegur þyngra í íslenskri þjóðarsál, mannúð - eða sjálfsvorkunn?Höfundur er rithöfundur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Vanvirðing við einkaframtakið og verðmætasköpun Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun
Þann 27. júlí síðastliðinn skýrði Morgunblaðið frá því, á forsíðu, að þróunarframlög Íslands yrðu skorin umtalsvert niður, og að þau yrðu langt fyrir neðan viðmið ESB. Nokkrar vikur hafa nú liðið og ég hef varla séð nokkur viðbrögð við þessari frétt, annaðhvort er flestum hér á Íslandi sama um þróunaraðstoð, eða þá að fréttin hefur drukknað í endalausum tíðindum af gjaldþrotum, Icesave, skuldum Íslands, fjármálamönnum með sviðna samvisku - ef þeir hafa þá samvisku. Framlag Íslands til þróunarríkja hefur ætíð verið vel undir því sem um hefur verið samið á alþjóðavettvangi, og samt höfum við verið í hópi ríkustu þjóða. Hvað skyldi það segja um hjartalag okkar? Ísland og Marshall-aðstoðinGetur verið að eyjabúar eigi erfiðara með að skilja aðrar þjóðir, eigi erfiðara með að setja sig í spor annarra? Ísland var eitt þeirra ríkja sem þáðu Marshallaðstoð frá Bandaríkjunum eftir síðara stríð, sú aðstoð var hugsuð fyrir þau lönd sem höfðu farið illa út úr stríðinu. Við misstum vissulega sjómenn, en sluppum vel miðað við aðrar þjóðir, svo ekki sé meira sagt - við græddum nefnilega á stríðinu. En þáðum þrátt fyrir það styrk ætlaðan stríðshrjáðum þjóðum, og sá styrkur gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu landsins eftir stríð.Ég veit ekki hvernig eða hvort fólk réttlætti þennan styrk sem ætlaður var ríkjum til að byggja upp hrundar borgir, en lagðist hér ofan á þann gróða sem við höfðum haft af hersetu Breta og Bandaríkjamanna. Hvernig gátu Íslendingar þegið styrkinn og horft um leið yfir rústir Evrópu - heyrðist ekkert í samviskunni? Eða töldum við okkur eiga svo bágt að það þyrfti enga réttlætingu við? Erum við kannski fljótari en aðrar þjóðir að vorkenna okkur sjálfum, gera of mikið úr vandamálunum, og þá vegna þess að þau eru það eina sem við þekkjum - við eigum enga nágranna sem við getum borið okkur saman við. Þjáningar annarra of fjarlægar fréttir? Munað eða mannslífOg er það ástæðan fyrir því að við skerum nú verulega niður þróunaraðstoðina, sem var lítil fyrir, og án þess að nokkur mótmæli - dagar okkar eru svo þungbærir að við getum ekki rétt þeim fátækustu hjálparhönd? Ég veit það ekki. Ég veit þó að í grimmum og nauðsynlegum niðurskurði þarf að hafa eina óbifanlega reglu; þú skerð ekki niður þar sem líf eru í hættu. Hvort sem þau eru hér, suður í Afríku, austur í Asíu. Þú skerð ekki niður þróunaraðstoð, nema þú sért algjörlega bjargarvana, sjálfur sveltandi, varnarlaus, sviptur öllu.Við berjumst vissulega við atvinnuleysi og skuldir þessa mánuðina, miklar skuldir, og sumir eru að kikna, það eru erfiðir tímar á Íslandi, en líf okkar er ekki í hættu. Sumir ramba á barmi gjaldþrots, vonleysis, en þó eru líklega tugþúsundir sem hafa það gott, þjáning þeirra felst helst í því að neyðast til að losa sig við annan bílinn, þurfa að neita sér um ferð til útlanda, velja sér ódýrari rauðvín. Hér þurfum við tímabundið að skera niður munaðinn - sumstaðar út í heimi er enginn munaður að skera niður, einungis líf. Að hjálpa þeim sem þjástÍ frétt Morgunblaðsins frá því í lok júlímánaðar kom fram að niðurskurður til þróunarmála yrði bara tímabundinn - því Evrópusambandið gerir þá kröfu að minnst 0,35 prósent af þjóðartekjum aðildarríkja fari í málefnið. Með öðrum orðum; við hækkum framlagið þegar við erum skikkuð til þess.Það besta sem maðurinn gerir í þessu lífi er að hjálpa þeim sem þjást, hjálpa þeim sem ekkert eiga, nema þá vonleysið. Þróunaraðstoð er hugsuð til þess að koma þeim íbúum heimsins til hjálpar sem annars deyja, eða sogast inn í algera örbirgð. Það er þetta fólk sem við höfum brugðist síðustu áratugi, og jafnvel meðan allt lék í lyndi, fólk keypti flatskjá á fimmtudegi, sumarbústað á föstudegi, flaug til New York á laugardegi.Og jafnskjótt og harðnar á dalnum lækkum við framlagið og hækkum ekki aftur fyrr en við erum neydd til þess. Aðstoðum ekki af hjartahlýju, stolti, samúð, heldur útaf pólitík, hækkum framlagið svo okkur verði hleypt inn í sal siðaðra þjóða. Erum við ekki meiri en það? Hvort vegur þyngra?En ef íslensk stjórnvöld ætla að bregðast veröldinni, þá er það þjóðin sem á að stíga fram. Og það er hægt að gera með ýmsum hætti. Ég bendi til dæmis þeim þúsundum Íslendinga sem ekki berjast í bökkum, eru ekki að bogna undir skuldum, að fara inn á vefsíður Rauða Kross Íslands, Gjöf sem gefur, SOS barnaþorpin, ABC, Unicef og leggja þar sitt á mörkum. Ég heiti á þá Íslendinga sem geta til dæmis lagt fram tvöþúsund og fimmhundruð á mánuði, án þess að sjá fram á gjaldþrot, nú eða fimm þúsuund, en fyrir þá upphæð er hægt að kaupa barn undan þrældómi, að láta til sína taka. Því til eru staðir í veröldinni þar sem fimm þúsund krónur á mánuði geta skilið á milli lífs og dauða, öryggis og örbirgðar.Það eru þrengingar hér á Íslandi, en á tímum þrenginga eigum við fremur en áður að muna eftir þeim sem þjást talsvert meira en við getum gert okkur í hugarlund. Á tímum þrenginga sýnum við hjartalag okkar. Og hvort vegur þyngra í íslenskri þjóðarsál, mannúð - eða sjálfsvorkunn?Höfundur er rithöfundur.