Körfubolti

Lakers fór létt með Orlando

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Orlando réðu ekkert við Kobe í nótt.
Leikmenn Orlando réðu ekkert við Kobe í nótt. Nordic Photos / Getty Images

LA Lakers átti ekki í miklum vandræðum með Orlando Magic í fyrsta leik liðanna í lokaúrslitum NBA-deildarinnar í nótt. Lakers vann, 100-75.

Kobe Bryant fór mikinn í leiknum og skoraði 40 stig. Fyrir honum var málið einfalt. „Mig langar virkilega mikið í titilinn. Flóknara er það ekki,“ sagði Kobe eftir leikinn. Fyrir ári síðan tapaði Lakers fyrir Boston í lokaúrslitunum og vilja Kobe og félagar ólmir bæta fyrir það tap nú í ár.

Orlando var hins vegar að spila í lokaúrslitunum í fyrsta sinn síðan 1995. Og þó svo að liðið  hafi unnið Lakers í báðum viðureignum sínum í deildakeppninni í vetur áttu þeir ekki roð í þá gulklæddu í nótt.

Bryant skoraði átján stig í þriðja leikhluta er Lakers náði 26 stiga forystu í leiknum og gerði endanlega út um hann.

Jameer Nelson lék sinn fyrsta leik með Orlando í fjóra mánuði eftir að hann gekkst undir aðgerð á öxl en það breytti engu.

Dwight Howard skoraði ekki nema tólf stig í leiknum, þar af tíu af vítalínunni. Leikmenn Lakers voru duglegir að tví- eða þrídekka hann þegar hann var með boltann.

Howard nýtti aðeins eitt skot af sex utan af velli og reyndar var heildarskotnýting Orlando ekki nema um 30 prósent í öllum leiknum. Liðið nýtti átta af 23 þriggja stiga tilraunum sínum.

Pau Gasol skoraði sextán stig fyrir Lakers og Lamar Odom var með ellefu stig og fjórtán fráköst. Mickael Pietrus skoraði fjórtán stig fyrir Orlando og Hedo Turkoglu þrettán.

Phil Jackson hefur á sínum ferli aldrei tapað rimmu í úrslitakeppninni þegar hans lið hefur unnið fyrsta leikinn í henni. Alls hefur það gerst í 43 rimmum Jackson til þessa. Næsti leikur liðanna er á sunnudagskvöldið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×