Körfubolti

Howard og Bryant þurfa að halda sér á mottunni

Howard og Bryant voru samherjar í bandaríska landsliðinu á ÓL í sumar og voru valdir í fyrsta úrvalslið NBA deildarinnar í vetur
Howard og Bryant voru samherjar í bandaríska landsliðinu á ÓL í sumar og voru valdir í fyrsta úrvalslið NBA deildarinnar í vetur NordicPhotos/GettyImages

Stórstjörnurnar Dwight Howard hjá Orlando Magic og Kobe Bryant hjá LA Lakers þurfa að gæta tungu sinnar það sem eftir lifir af úrslitakeppninni í NBA.

Þessir sterku leikmenn eru nefnilega efstir og jafnir á lista yfir þá sem fengið hafa flestar tæknivillur í úrslitakeppninni til þessa - fimm tæknivillur hvor.

Ef leikmaður fær sjö tæknivillur í úrslitakeppninni er hann sjálfkrafa dæmdur í eins leiks bann og það er nokkuð sem lið þeirra félaga mega illa við þegar komið er fram í undanúrslitin.

Howard fékk síðast tæknivillu í leik Orlando og Cleveland í nótt þar sem hann gat ekki stillt sig um að segja Joey Crawford dómara skoðun sína á störfum hans.

"Ég sagði ekkert við Joey Crawford," mótmælti Howard á blaðamannafundi eftir leikinn.

Menn hafa farið flatt á því að deila við þann tiltekna dómara, sem leiðist ekki sviðsljósið og hikar ekki við að henda mönnum í bað ef honum mislíkar framkoma þeirra.

Kobe Bryant hefur reyndar fengið sex tæknivillur í úrslitakeppninni, en ein þeirra var dregin til baka. Það var eftir viðskipti hans við Ron Artest hjá Houston í annari umferðinni.

Bryant verður í eldlínunni í nótt þegar lið hans sækir Denver heim í fjórðu viðureign liðanna í úrslitum Austurdeildar. Leikurinn er sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan eitt eftir miðnætti. Lakers hefur yfir 2-1 í einvíginu.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×