Körfubolti

Marbury til Celtics

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stephon Marbury á skrautlegan feril að baki.
Stephon Marbury á skrautlegan feril að baki. Nordic Photos / Getty Images
NBA-meistaralið Boston Celtics tilkynnti í dag að það hefði samið við Stephon Marbury sem var án félags eftir að hann hætti hjá New York Knicks á dögunum.

Marbury hefur reyndar ekkert spilað með Knicks á tímabilinu eftir að hann missti byrjunarliðssæti sitt til Chris Duhon. Honum sinnaðist við Mike D'Antoni, þjálfara Knicks, í kjölfarið og var bannað að koma á æfingar eða leiki liðsins. Síðast spilaði hann með Knicks fyrir ári síðan.

Þetta er góður styrkur fyrir meistarana og eykur vissulega vonir liðsins að landa öðrum titlinum í röð nú í sumar. Ætla má að Marbury gegni svipuðu hlutverki og Sam Cassell gerði á síðasta tímabili og verði fyrst og fremst notaður sem varamaður.

Marbury er oft kallaður Starbury og efast margir um að hann geti verið í liði þar sem hann er ekki aðalstjarnan. Marbury fær nú tækifæri til að sýna hvað í honum býr.

Marbury er á sínu þrettánda keppnistímabili í NBA-deildinni og hefur á ferlinum skorað 19,7 stig og gefið 7,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hefur í fimm skipti verið meðal fimm stoðsendingahæstu leikmanna deildarinnar og níu sinnum á meðal tíu efstu. Hann hefur tvívegis verið valinn í stjörnulið NBA-deildarinnar.

Hann hefur þó oft komist í fjölmiðla fyrir aðrar ástæður en frammistöðu sína á körfuboltavellinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×