Körfubolti

Láttu mig vita næst þegar þú ætlar að skora 60 stig

Phil Jackson vill gjarnan fá að vita af því næst þegar Kobe Bryant dettur í stuð
Phil Jackson vill gjarnan fá að vita af því næst þegar Kobe Bryant dettur í stuð AP

Phil Jackson þjálfari LA Lakers er mátulega hrifinn af því þegar Kobe Bryant sleppir af sér beislinu í stigaskorun líkt og hann gerði í sigri liðsins á New York í fyrrakvöld.

Bryant setti met í Madison Square Garden þegar hann sallaði 61 stigi á Knicks en Jackson fagnaði afreki leikmannsins með fyrirvara.

"Ég vil ekki að hann skori svona mikið í hverjum leik, því við erum með nokkra aðra leikmenn sem geta tekið af skarið. Okkur vantar auðvitað nokkur stig eftir að Andrew Bynum meiddist, en undir lok leiksins gegn New York var Pau Gasol til dæmis að gefa á hann þegar hann hefði geta skorað sjálfur," sagði Jackson.

Hann er ekki óvanur því að sjá skotbakverði fara hamförum, því hann var auðvitað þjálfari Michael Jordan um árabil hjá Chicago. Hann vill samt fá að vita af næstu stórskotahríð Bryant.

"Ég talaði við Kobe eftir leikinn og spurði hann af hverju hann hefði ekki látið mig vita af því að hann ætlaði í svona stuð - því þá hefði ég geta reiknað með því. Hann var bara svo sjóðheitur í byrjun að hinir leikmennirnir tóku ómeðvitað þátt í sýningunni," sagði Jackson.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×