Að geta sofið rólegur Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 10. september 2009 06:00 Fátt er betra eftir annasaman dag en að skríða upp í mjúkt rúmið sitt og draga sængina upp að höku. Finna augnlokin þyngjast, þreytuna líða úr líkamanum og geta sofið rólegur. „Ég svaf bara eins og ungbarn" segir fólk gjarnan þegar það hefur sofið sérstaklega vel og lengi. Endurnært rís það úr rekkju, teygir sig og dæsir ánægjulega og vindur sér svo í verk dagsins af fullum krafti. Batteríin fullhlaðin og skapið svona ljómandi gott. Þetta orðatiltæki er reyndar eins öfugsnúið og það getur verið. Svefn ungbarna er langt frá því að vera langur, hvað þá ljúfur og endurnærandi, í það minnsta ekki fyrir foreldrana. Enda þekki ég fáa sem geta tekið undir þennan frasa. Svefn ungbarna er í meira lagi kaflaskiptur og ekki er gerður greinarmunur á nóttu eða degi. „Börn eru fallegust þegar þau sofa" er aftur á móti orðatiltæki sem hittir naglann á höfuðið og flestir geta tekið undir. Annars er skrítið hve misjöfn viðhorf til svefns eru eftir æviskeiðum. Ungbörnin virðast aldrei geta sofið nóg fyrir okkar smekk og dagar jafnt sem nætur snúast um að fá barnið til að festa svefn lengur en í nokkrar mínútur. Því er vaggað, gengið er með það um gólf, vögguvísur eru sungnar hástöfum og barnavagninn ferðast tugi kílómetra á fyrstu mánuðunum, allt til að hrista niður augnlokin á smábarninu. Á unglingsárunum snýst þetta síðan við og allt kapp er lagt á að fá unglinginn á fætur. Þá er barnið allt í einu ekki eins fallegt sofandi og margra klukkutíma samfelldur svefn litinn hvössu hornauga. Barið er hart á svefnherbergisdyrnar, vekjaraklukkur stilltar hátt og reynt að reka unglinginn snemma í háttinn svo einhver von verði til að hann hunskist á lappir fyrir hádegi. „Hvernig geturðu sofið svona, barn, þegar veðrið er svona gott?" Á seinni hluta ævinnar á fólk síðan oft erfitt með að festa svefn. Það sefur létt, vaknar auðveldlega við minnsta þrusk og ætlar svo aldrei að geta sofnað aftur. Andvaka byltir það sér fram undir morgun. En ætli það sé ekki afraksturinn eftir að hafa ekkert getað sofið fyrir ungbarninu til að byrja með og síðan verið svefnlaus af áhyggjum yfir endalausum svefni unglingsins. Það er ekki sjálfgefið að geta sofið rólegur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Fátt er betra eftir annasaman dag en að skríða upp í mjúkt rúmið sitt og draga sængina upp að höku. Finna augnlokin þyngjast, þreytuna líða úr líkamanum og geta sofið rólegur. „Ég svaf bara eins og ungbarn" segir fólk gjarnan þegar það hefur sofið sérstaklega vel og lengi. Endurnært rís það úr rekkju, teygir sig og dæsir ánægjulega og vindur sér svo í verk dagsins af fullum krafti. Batteríin fullhlaðin og skapið svona ljómandi gott. Þetta orðatiltæki er reyndar eins öfugsnúið og það getur verið. Svefn ungbarna er langt frá því að vera langur, hvað þá ljúfur og endurnærandi, í það minnsta ekki fyrir foreldrana. Enda þekki ég fáa sem geta tekið undir þennan frasa. Svefn ungbarna er í meira lagi kaflaskiptur og ekki er gerður greinarmunur á nóttu eða degi. „Börn eru fallegust þegar þau sofa" er aftur á móti orðatiltæki sem hittir naglann á höfuðið og flestir geta tekið undir. Annars er skrítið hve misjöfn viðhorf til svefns eru eftir æviskeiðum. Ungbörnin virðast aldrei geta sofið nóg fyrir okkar smekk og dagar jafnt sem nætur snúast um að fá barnið til að festa svefn lengur en í nokkrar mínútur. Því er vaggað, gengið er með það um gólf, vögguvísur eru sungnar hástöfum og barnavagninn ferðast tugi kílómetra á fyrstu mánuðunum, allt til að hrista niður augnlokin á smábarninu. Á unglingsárunum snýst þetta síðan við og allt kapp er lagt á að fá unglinginn á fætur. Þá er barnið allt í einu ekki eins fallegt sofandi og margra klukkutíma samfelldur svefn litinn hvössu hornauga. Barið er hart á svefnherbergisdyrnar, vekjaraklukkur stilltar hátt og reynt að reka unglinginn snemma í háttinn svo einhver von verði til að hann hunskist á lappir fyrir hádegi. „Hvernig geturðu sofið svona, barn, þegar veðrið er svona gott?" Á seinni hluta ævinnar á fólk síðan oft erfitt með að festa svefn. Það sefur létt, vaknar auðveldlega við minnsta þrusk og ætlar svo aldrei að geta sofnað aftur. Andvaka byltir það sér fram undir morgun. En ætli það sé ekki afraksturinn eftir að hafa ekkert getað sofið fyrir ungbarninu til að byrja með og síðan verið svefnlaus af áhyggjum yfir endalausum svefni unglingsins. Það er ekki sjálfgefið að geta sofið rólegur.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun