Fastir pennar

Að tala við þjóðina

Atvinnurekendur vita að á tímum mikilla breytinga er gríðarlega mikilvægt að halda vel utan um starfsfólk sitt. Sameiningar fyrirtækja sem líta vel út á pappírnum geta oft mistekist vegna þess eins að stjórnendur gæta ekki að mannlega þættinum. Á breytinga- og umbrotatímum er nauðsynlegt að halda starfsfólki vel upplýstu, draga úr óvissu eins og kostur er og tryggja þannig stuðning við fyrirhugaðar breytingar. Án stuðnings starfsfólks eru meiri líkur en minni að illa fari - að breytingar nái ekki þeim árangri sem stefnt er að.

Þetta er gryfja sem ríkisstjórnin er óðfluga að falla í. Hún vinnur og vinnur að lausn vandamála, en gleymir að tala við „starfsfólk" sitt - íslensku þjóðina. Vandamálin vegna fjármála- og gjaldeyris­kreppunnar eru mörg og flest afar flókin og má segja að engin þjóð hafi staðið frammi fyrir vanda af þessu tagi. Engum dylst því að ríkisstjórnin er undir gríðarlegu vinnuálagi og hefur verið svo mánuðum skiptir.

Þetta skynjar þjóðin og skilur að vandinn er ekki auðleystur. Hún skynjar líka að til að komast í gegnum erfiðleikana þarf ríkisstjórnin að taka margar óvinsælar ákvarðanir - lækka laun, hækka skatta og skerða þjónustu. Þetta eru langflestir tilbúnir að leggja á sig svo lengi sem sanngirnis og jafnræðis er gætt. Hlutirnir hafa hins vegar gengið of hægt og tekið of langan tíma og á meðan hafa fyrirtæki og heimili beðið milli vonar og ótta. Og það eru einmitt þessar kringumstæður - bið í óvissu og öryggisleysi vikum og mánuðum saman - sem fara verst með þjóðina. Flestir landsmenn fá það á tilfinninguna að ekkert sé verið að gera - að enginn beri hag þeirra fyrir brjósti. Afleiðingin verður sú að margir missa móðinn - gefast hreinlega upp.

Við þessar aðstæður er hrópað eftir leiðtoga og leiðsögn. Landsmenn vilja fá vissu fyrir því að verið sé að vinna í þeirra málum, leysa þeirra vandamál - að einhver hafi stjórn á atburðarásinni. Þessu verður ríkisstjórnin að átta sig á. Ef hún ætlar að leiða þjóðina í gegnum þessa erfiðleika og fylkja sem flestum á bak við sig verður hún að vera í nánu sambandi við þjóðina - sannfæra hana um að hún ráði við ástandið.

Tímaskortur og vinnuálag geta aldrei verið afsökun fyrir að vanrækja sitt fólk. Landsmenn hungrar í upplýsingar þannig að þeir geti áttað sig á stöðunni - gert áætlanir um hvernig þeir geti best unnið sig upp úr núverandi ástandi. Ef hlutirnir taka lengri tíma en ráð var fyrir gert þá verður ríkisstjórnin að útskýra það fyrir þjóðinni - að setja ný tímamörk þannig að þjóðin fá nýjan viðmiðunarpunkt. Ríkisstjórnin getur ekki lokað sig af á meðan málin eru í vinnslu og skilið alla í lausu lofti á meðan. Við þessar aðstæður þarf ríkisstjórnin að vera beintengd við þjóðina - atvinnulífið og heimilin sætta sig aldrei við annað.








×