Íslenski boltinn

Sandra: Viljum vera áfram með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Sigurðardóttir, markvörður og fyrirliði Stjörnunnar.
Sandra Sigurðardóttir, markvörður og fyrirliði Stjörnunnar. Mynd/Stefán

Sandra Sigurðardóttir, markvörður og fyrirliði Stjörnunnar, er klár í leikinn á móti Val í kvöld en með sigri geta Stjörnukonur komist á toppinn í Pepsi-deildinni en tapi þær leiknum eiga þær ekki lengur möguleika á Íslandsmeistaratitlinum í ár.

„Við viljum vera áfram með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og leggjum allt í þennan leik. Við erum búnar að vera ná góðum úrslitum á móti nánast öllum liðum þannig að við getum það alveg í dag," sagði Sandra.

„Það er búin að vera pása þannig að leikmenn eru mjög spenntir fyrir leiknum. Það er komið hungur í leikmenn að spila og vonandi náum við að nýta pásuna rétt," segir Sandra sem var með íslenska landsliðinu út í Finnlandi á EM.

Stjarnan tapaði 5-0 á móti Val í bikarnum en Sandra segir að sá leikur hafi verið slys.

„Þetta er allt önnur keppni en bikarinn. Það eru möguleikar til staðar og við getum unnið hvaða lið sem er og við getum líka tapað fyrir hvaða liði sem er. Ef við pælum eitthvað í þessum bikarleik þá nýtum við hann til þess að hjálpa okkur," segir Sandra en hún viðurkennir að hún búist við því að það verði mikið að gera hjá henni í leiknum.

„Þarf maður ekki alltaf að eiga stórleik og standa fyrir sínu," segir Sandra og bætir við: „Þær eru með frábært lið og gott markaskoraralið þannig og ég verð að standa mig til þess að við náum eitthvað út úr þessum leik," segir Sandra.

Stjarnan teflir fram sínu sterkasta liði í dag og kemur miðjumaðurinn Edda María Birgisdóttir sérstaklega til Íslands til að spila leikinn.

Leikurinn hefst klukkan 18.00 á Stjörnuvelli í Garðabæ og er frítt í leikinn í boði Avant sem er einn helsti styrktaraðili Stjörnunnar.

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×