Körfubolti

Ron Artest: Mér að kenna ef Lakers-liðið ver ekki titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ron Artest sést reyna að dekka Kobe Bryant  en þeir leika saman hjá Los Angeles Lakers í vetur.
Ron Artest sést reyna að dekka Kobe Bryant en þeir leika saman hjá Los Angeles Lakers í vetur. Mynd/AFP

Körfuboltamaðurinn Ron Artest er þekktur fyrir sínar yfirlýsingar og hann er óhræddur við að setja pressu á sjálfan sig. Artest sem samdi við NBA-meistara Los Angeles Lakers í sumar, mun spila við hlið Kobe Bryant í vetur og sættir sig við ekkert annað en meistaratitil næsta sumar.

„Stuðningsmenn Lakers eiga að kenna mér um það ef við vinnum ekki titilinn í vetur. Liðið vann á síðasta ári og síðan hef ég bæst í hópinn. Það búast allir við að við verjum titilinn og allir í Los Angeles liðinu bíða eftir að fá annan meistarahring," sagði þessi 29 ára framherji.

Artest er þekktur fyrir frábæran varnarleik en hann er 201 sentímetrar á hæð og getur dekkað fljótustu bakverði deildarinnar eins og Kobe Bryant.

„Ef við vinnum ekki þá geta allir bent á mig og þeir ættu líka að kasta í mig tómötum og öllu tilheyrandi," sagði Artest meira í gríni en alvöru.

Artest skrifaði undir fimm ára og 33 milljón dollara samning við Lakers 8.júlí síðastliðinn en hann kemur í stað Trevor Ariza sem samdi í staðinn við hans gamla lið Houston Rockets.

Ron Artest hefur spilaði í NBA-deildinni frá 1999 með liðum Chicago Bulls (1999-2002), Indiana Pacers (2002-2006), Sacramento Kings (2006-2008) og Houston Rockets (2008-2009) og er með 16,1 stig, 5,1 frákast, 3,2 stoðsendingar og 2,1 stolna bolta að meðaltali í 604 leikjum.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×