Körfubolti

Michael Jordan fær einkasýningu í Frægðarhöllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan.
Michael Jordan. Mynd/AFP

Frægðarhöll NBA-deildarinnar í körfubolta býr sig núna undir það að taka á móti einum allra besta körfuboltamanni allra tíma - Michael Jordan. Jordan verður tekinn inn í Frægðarhöllina 11. september næstkomandi og að því tilefni fær hann sérstaka einkasýningu í höllinni þar sem finna má allskyns hluti tengdum ferli hans.

Jordan-hornið verður sýning á hlutum frá hans ferli í NBA-deildinni sem og frá háskólaferli hans með Norður-Karólínu skólanum. Þar verða einnig hlutir frá því þegar hann lék með Draumaliði Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Barcelona og meira að segja hafnarboltahanski frá því að hann prófaði að spila í bandarísku hafnarboltadeildinni.

Jordan-hornið verður styrkt af Nike sem hefur verið íþróttamerki Michael Jordan á hans ferli og gaf Nike 250 þúsund dollara til sýningarinnar. Á sýningunni verður hægt að skoða alla sérhönnuðu Nike-skónna sem Jordan lék í á sínum ferli.

Það ætti að vera af nógu að taka enda er ferill Michael Jordan afar glæsilegur. Hann vann meðal annars sex meistaratitla með Chicago Bulls og tvö Ólympíugull með bandaríska landsliðinu auk allra einstaklingsafreka sinna.

Það verða fleiri kunnir kappar teknir inn í Frægðarhöllina um leið og Michael Jordan en það eru leikmennirnir David Robinson og John Stockton og þjálfararnir Jerry Sloan og C. Vivian Stringer.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×