Vinstri stjórn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 11. maí 2009 06:00 Það er engan veginn auðvelt eða sjálfsagt mál fyrir VG og Samfylkingu að mynda saman ríkisstjórn: flokkarnir hafa í grundvallaratriðum andstæðar skoðanir í Evrópumálum og foringjar beggja flokkanna þurfa að geta staðið frammi fyrir sínu fólki og varið þá leið sem farin var. Úr mörgu þarf að greiða. Þetta er vegna sögunnar - vegna hefðar flokkanna sem þessir eru runnir frá - vegna rótgróins þankagangs innan þeirra beggja. Skúli Thoroddsen mun alltaf greiða atkvæði á móti Uppkastinu og Benedikt Sveinsson á móti Miðluninni. Innan íslenskrar stjórmálahugsunar liggur þungur straumur allt frá Benedikt Sveinssyni og síðar Skúla Thoroddsen og Landvarnarmönnum, straumur þeirra sem gera ítrustu kröfur í sjálfstæðismálum. Þetta er nauðsynleg rödd en hún má ekki alltaf vera ríkjandi. Ýmislegt varð til þess að þessi straumur fann sér farveg innan sósíalistahreyfingarinnar fremur en annars staðar; hjá Skúla Thoroddsen fór saman ítrasta krafa um full réttindi þjóðarinnar og frjálslynd framfarahyggja í þjóðfélagsmálum, sem hann deildi raunar með Hannesi Hafstein, svona til að flækja málin enn frekar. Út frá sjónarhóli Alþýðuflokksins reyndist rótgróið áhugaleysi foringja þess flokks um sjálfstæðisstjórnmál - alþjóðahyggja þeirra - koma í veg fyrir að flokkurinn yrði það afl í íslenskum stjórnmálum sem til stóð. Foringjarnir litu út sem lyddur gagnvart erlendu valdi í augum hugsanlegra kjósenda - í Natómálinu og Herstöðvamálinu, þó að þeir hefðu vissulega þjóðarheill að leiðarljósi og fylgdu sömu stefnu og kratar annars staðar á Norðurlöndunum, sem voru jafnvel enn eindregnari andkommúnistar. Íslenskum kommúnistum tókst að breyta sér í eitthvað annað með hjálp þjóðrækninnar - einhvers konar þjóðhyggjuflokk - einhvers konar krata. Þegjandi og hljóðalaust hættu þeir að aðhyllast byltingu og ríkiseign allra framleiðslutækja og Eðvarð fór að vinna með Bjarna Ben í bróðerni að því að útrýma vondum húsakosti - einhvers konar kratar sem sé og þó ekki alveg, því ekki er til verra skammaryrði í munni gamals komma en að segja að einhver sé „krrraaaaaathi" - heitið er beinlínis urrað - og eins var undirlægjuháttur margra foringja íslenskra kommúnista gagnvart Sovétkommúnismanum furðu lífseigur, jafnvel eftir að óhæfuverkin tóku að koma í ljós. En þeir voru sem sé harðir í horn að taka og stóðu með þeim fátæku gegn þeim ríku, þeim valdalausu gegn valdhöfunum og þessi varðstaða færðist yfir á varðstöðu um réttindi þjóðarinnar gagnvart ofríki erlendra hervelda. Kratarnir voru deigir - eða höfðu þannig áru. Vissulega áttu þeir sínar verkalýðshetjur sem dáðar voru af allri alþýðu - Jóhönnu Egilsdóttur, Héðin, Hannibal og fleiri og fleiri en smám saman fékk flokkurinn það yfirbragð að vera lítill hægriflokkur, alveg eins og Framsókn var eftir sína stjórnartíð með íhaldinu og Samfó hefði orðið ef sú stjórn hefði haldið áfram. Sem sé: þetta er ekki auðvelt. Sagan er eflaust stundum eins og myllusteinn um hálsinn á því fólki sem nú fyllir flokkana sem komu í stað Alþýðubandalags og Alþýðuflokks. Vandinn er sá að láta þennan arf hvíla á sínum stað - vita af honum, bera virðingu fyrir því fólki sem á undan fór - en átta sig um leið á því að hugsunarháttur þess á ekki lengur við. Frá miðri tuttugustu öldinni hafa sjálfstæðisstjórnmálin sundrað vinstri mönnum á Íslandi - ágreiningur um stað Íslands í samfélagi þjóðanna. Fyrst vildu kommúnistar að Ísland tæki sér stöðu með leppríkjum Sovétríkjanna og síðan settu arftakar þeirra fram hugmyndir um að Ísland skipaði sér í lið með arðrændum ríkjum þriðja heimsins - einn leiðtogi Alþýðubandalagsins vildi að Ísland gengi í Asíu - allt nema Evrópu - en nú á dögum tala menn í VG helst um að Ísland eigi heima meðal norrænu ríkjanna, en þangað hafa einmitt kratar einatt litið eftir leiðsögn. Þannig að þetta þokast á sama stað. Systurflokkar VG á Norðurlöndum eru raunar áhugasamir um Evrópusamstarf (eins og meirihluti kjósenda VG líka) og innan flokksins eru ýmsir sem deila þeirri skoðun með Samfylkingarfólki að aðildin að ESB sé einmitt stærsta sjálfstæðismálið. En hann er þungur þessi straumur sem liggur frá Benedikt Sveinssyni að hamast gegn Miðluninni - sá óbilgjarnasti og tortryggnasti í garð útlendinga verður ævinlega hávært afl í íslenskum stjórnmálum. En við skulum muna það - kæru félagar í Samfylkingu og Vinstri grænum - að á meðan vinstri menn á Íslandi voru að rífast um Uppkastið komu hægri menn á fót kvótakerfinu og festu hér í sessi rammari og ranglátari stéttaskiptingu en annars staðar á Norðurlöndum. Og hitt: A-flokkarnir eru dauðir. Nýtt fólk - ný kynslóð - þarf nú að bjarga Íslandi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Vanvirðing við einkaframtakið og verðmætasköpun Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Vegið að framtíð ungs vísindafólks á Íslandi Katrín Möller,Svava Dögg Jónsdóttir Skoðun
Það er engan veginn auðvelt eða sjálfsagt mál fyrir VG og Samfylkingu að mynda saman ríkisstjórn: flokkarnir hafa í grundvallaratriðum andstæðar skoðanir í Evrópumálum og foringjar beggja flokkanna þurfa að geta staðið frammi fyrir sínu fólki og varið þá leið sem farin var. Úr mörgu þarf að greiða. Þetta er vegna sögunnar - vegna hefðar flokkanna sem þessir eru runnir frá - vegna rótgróins þankagangs innan þeirra beggja. Skúli Thoroddsen mun alltaf greiða atkvæði á móti Uppkastinu og Benedikt Sveinsson á móti Miðluninni. Innan íslenskrar stjórmálahugsunar liggur þungur straumur allt frá Benedikt Sveinssyni og síðar Skúla Thoroddsen og Landvarnarmönnum, straumur þeirra sem gera ítrustu kröfur í sjálfstæðismálum. Þetta er nauðsynleg rödd en hún má ekki alltaf vera ríkjandi. Ýmislegt varð til þess að þessi straumur fann sér farveg innan sósíalistahreyfingarinnar fremur en annars staðar; hjá Skúla Thoroddsen fór saman ítrasta krafa um full réttindi þjóðarinnar og frjálslynd framfarahyggja í þjóðfélagsmálum, sem hann deildi raunar með Hannesi Hafstein, svona til að flækja málin enn frekar. Út frá sjónarhóli Alþýðuflokksins reyndist rótgróið áhugaleysi foringja þess flokks um sjálfstæðisstjórnmál - alþjóðahyggja þeirra - koma í veg fyrir að flokkurinn yrði það afl í íslenskum stjórnmálum sem til stóð. Foringjarnir litu út sem lyddur gagnvart erlendu valdi í augum hugsanlegra kjósenda - í Natómálinu og Herstöðvamálinu, þó að þeir hefðu vissulega þjóðarheill að leiðarljósi og fylgdu sömu stefnu og kratar annars staðar á Norðurlöndunum, sem voru jafnvel enn eindregnari andkommúnistar. Íslenskum kommúnistum tókst að breyta sér í eitthvað annað með hjálp þjóðrækninnar - einhvers konar þjóðhyggjuflokk - einhvers konar krata. Þegjandi og hljóðalaust hættu þeir að aðhyllast byltingu og ríkiseign allra framleiðslutækja og Eðvarð fór að vinna með Bjarna Ben í bróðerni að því að útrýma vondum húsakosti - einhvers konar kratar sem sé og þó ekki alveg, því ekki er til verra skammaryrði í munni gamals komma en að segja að einhver sé „krrraaaaaathi" - heitið er beinlínis urrað - og eins var undirlægjuháttur margra foringja íslenskra kommúnista gagnvart Sovétkommúnismanum furðu lífseigur, jafnvel eftir að óhæfuverkin tóku að koma í ljós. En þeir voru sem sé harðir í horn að taka og stóðu með þeim fátæku gegn þeim ríku, þeim valdalausu gegn valdhöfunum og þessi varðstaða færðist yfir á varðstöðu um réttindi þjóðarinnar gagnvart ofríki erlendra hervelda. Kratarnir voru deigir - eða höfðu þannig áru. Vissulega áttu þeir sínar verkalýðshetjur sem dáðar voru af allri alþýðu - Jóhönnu Egilsdóttur, Héðin, Hannibal og fleiri og fleiri en smám saman fékk flokkurinn það yfirbragð að vera lítill hægriflokkur, alveg eins og Framsókn var eftir sína stjórnartíð með íhaldinu og Samfó hefði orðið ef sú stjórn hefði haldið áfram. Sem sé: þetta er ekki auðvelt. Sagan er eflaust stundum eins og myllusteinn um hálsinn á því fólki sem nú fyllir flokkana sem komu í stað Alþýðubandalags og Alþýðuflokks. Vandinn er sá að láta þennan arf hvíla á sínum stað - vita af honum, bera virðingu fyrir því fólki sem á undan fór - en átta sig um leið á því að hugsunarháttur þess á ekki lengur við. Frá miðri tuttugustu öldinni hafa sjálfstæðisstjórnmálin sundrað vinstri mönnum á Íslandi - ágreiningur um stað Íslands í samfélagi þjóðanna. Fyrst vildu kommúnistar að Ísland tæki sér stöðu með leppríkjum Sovétríkjanna og síðan settu arftakar þeirra fram hugmyndir um að Ísland skipaði sér í lið með arðrændum ríkjum þriðja heimsins - einn leiðtogi Alþýðubandalagsins vildi að Ísland gengi í Asíu - allt nema Evrópu - en nú á dögum tala menn í VG helst um að Ísland eigi heima meðal norrænu ríkjanna, en þangað hafa einmitt kratar einatt litið eftir leiðsögn. Þannig að þetta þokast á sama stað. Systurflokkar VG á Norðurlöndum eru raunar áhugasamir um Evrópusamstarf (eins og meirihluti kjósenda VG líka) og innan flokksins eru ýmsir sem deila þeirri skoðun með Samfylkingarfólki að aðildin að ESB sé einmitt stærsta sjálfstæðismálið. En hann er þungur þessi straumur sem liggur frá Benedikt Sveinssyni að hamast gegn Miðluninni - sá óbilgjarnasti og tortryggnasti í garð útlendinga verður ævinlega hávært afl í íslenskum stjórnmálum. En við skulum muna það - kæru félagar í Samfylkingu og Vinstri grænum - að á meðan vinstri menn á Íslandi voru að rífast um Uppkastið komu hægri menn á fót kvótakerfinu og festu hér í sessi rammari og ranglátari stéttaskiptingu en annars staðar á Norðurlöndum. Og hitt: A-flokkarnir eru dauðir. Nýtt fólk - ný kynslóð - þarf nú að bjarga Íslandi.