Körfubolti

Útlit fyrir að Allen Iverson sé að hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Allen Iverson í leik með Denver í fyrra.
Allen Iverson í leik með Denver í fyrra. Nordic Photos / Getty Images

Allt útlit er fyrir að Allen Iverson muni fljótlega leggja skóna á hilluna eftir langan feril í NBA-deildinni í körfubolta.

Tilkynning sem Iverson er skrifaður fyrir birtist í gær á heimasíðu Stephen A. Smith, fréttamanns í Bandaríkjunum.

Þar kemur fram að Iverson hafi enn mikinn metnað til að spila í NBA-deildinni og hafi enn mikla ástríðu fyrir körfubolta.

Hins vegar virðist tilfellið vera að ekkert lið í NBA-deildinni hafi áhuga á að fá hann í sínar raðir. Hann lék síðast með Memphis í haust en náði aðeins þremur leikjum áður en hann hætti þar.

Iverson er þó einn allra besti leikmaðurinn sem hefur spilað í NBA-deildinni undanfarinn áratug.

Hann hóf ferilinn sem nýliði hjá Philadelphia árið 1996 og var kjörinn nýliði ársins á sínu fyrsta tímabili. Fimm árum síðar var hann valinn besti leikmaður deildairnnar. Það sama ár, 2001, fór Philadelphia alla leið í úrslit NBA-deildarinnar en tapaði fyrir LA Lakers, 4-1.

Iverson var stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar í fjórgang. Fyrst tímabilið 1998-9 og svo aftur tímabilið 2004-5.

Alls var hann valinn í stjörnulið NBA-deildarinnar í tíu skipti og var tvisvar valinn besti leikmaður stjörnuleiksins, 2001 og 2005.

Hann lék með Philadelphia frá 1996-2006 en fór þaðan til Denver þar sem hann var í tvö ár. Hann lék svo með Detroit í fyrra. Alls skoraði hann rúm 24 þúsund stig á ferlinum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×