Endurreisn á trausti Alþingis Steinunn Stefánsdóttir skrifar 24. febrúar 2009 06:00 Hrun íslenska fjármálakerfisins í haust sem leið hefur markað djúp spor í þjóðlífið. Svo djúp að tímatal miðast nú að talsverðu leyti við hrunið og mun áreiðanlega gera um langt skeið. Fátt er nú sem áður var, hvorki í veraldlegum efnum né hvað varðar minna áþreifanlega þætti. Þannig eru nú sett spurningamerki við ýmislegt sem áður var talið sjálfgefið, meðal annars ýmsar grunnstoðir samfélagsins. Krafan um aukið lýðræði og endurskoðun stjórnsýslunnar hefur einnig verið hávær. Mörgum þykir sem íslensk stjórnvöld, og þar á meðal Alþingi, hafi flotið sofandi að feigðarósi í aðdraganda hrunsins. Eftir hrunið varð máttleysi þingsins einnig hrópandi þegar ljóst var að öll framvinda viðbragða við efnahagshruninu átti sér stað utan þingsala. Svo rammt kvað að þessu að þingmenn bjuggu við þann veruleika að fá upplýsingar um framvindu mála gegnum fjölmiðla. Um þetta varð nokkur umræða í þinginu í haust og kom það sjónarmið meðal annars fram að Alþingi gegndi að allt of stórum hluta því hlutverki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Ljóst er að skerpa þarf hlutverk Alþingis og að það verður ekki gert nema með áþreifanlegum breytingum á stjórnarskrá. Íslenska stjórnarskráin á uppruna í dönsku stjórnarskránni frá því um miðja 19. öld. Danir hafa gert verulegar breytingar á sinni stjórnarskrá og meðal annars styrkt hlutverk þingsins. Endurskoðun stjórnarskrárinnar hér hefur staðið lengi en gengið afar hægt. Ljóst er að þar er við mikil tregðulögmál að etja og það er ástæða þess að hugmyndin um sérstakt stjórnlagaþing hefur hlotið talsverðan byr. Hvernig svo sem vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar verður háttað hlýtur eitt af markmiðunum með henni að vera að efla vald þingsins þannig að löggjafarvaldið geti veitt framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald. Á næstu vikum fara fram prófkjör og annars konar uppstillingar á lista fyrir komandi kosningar í apríl. Krafan um endurnýjun hefur verið hávær og sannarlega er það ljós í skammdeginu hversu margir vilja nú gefa kost á sér til þingsetu. Vissulega er þörf á mannabreytingum í þinginu. Í ljósi þeirra hamfara sem dunið hafa á þjóðinni er nauðsynlegt að ferskir vindar fái að blása um þingsali eftir kosningar í vor. Nýliðunin nægir þó ekki ein og sér. Minna má á að mikil endurnýjun varð á þingi í kjölfar síðustu kosninga. Þeirrar endurnýjunar hefur þó ekki séð verulega stað í störfum þingsins enda hefur engin breyting orðið á starfsumhverfi þess eða menningu. Snúa verður frá þeirri óheillaþróun að Alþingi Íslendinga gegni fyrst og fremst því hlutverki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið í stjórnskipun þar sem völd ráðherra eru svo mikil að lögspekingar tala um ráðherraræði. Alþingi verður að hafa skýrt hlutverk og geta veitt framkvæmdarvaldinu, þar á meðal ráðherrum, aðhald í störfum sínum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór
Hrun íslenska fjármálakerfisins í haust sem leið hefur markað djúp spor í þjóðlífið. Svo djúp að tímatal miðast nú að talsverðu leyti við hrunið og mun áreiðanlega gera um langt skeið. Fátt er nú sem áður var, hvorki í veraldlegum efnum né hvað varðar minna áþreifanlega þætti. Þannig eru nú sett spurningamerki við ýmislegt sem áður var talið sjálfgefið, meðal annars ýmsar grunnstoðir samfélagsins. Krafan um aukið lýðræði og endurskoðun stjórnsýslunnar hefur einnig verið hávær. Mörgum þykir sem íslensk stjórnvöld, og þar á meðal Alþingi, hafi flotið sofandi að feigðarósi í aðdraganda hrunsins. Eftir hrunið varð máttleysi þingsins einnig hrópandi þegar ljóst var að öll framvinda viðbragða við efnahagshruninu átti sér stað utan þingsala. Svo rammt kvað að þessu að þingmenn bjuggu við þann veruleika að fá upplýsingar um framvindu mála gegnum fjölmiðla. Um þetta varð nokkur umræða í þinginu í haust og kom það sjónarmið meðal annars fram að Alþingi gegndi að allt of stórum hluta því hlutverki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Ljóst er að skerpa þarf hlutverk Alþingis og að það verður ekki gert nema með áþreifanlegum breytingum á stjórnarskrá. Íslenska stjórnarskráin á uppruna í dönsku stjórnarskránni frá því um miðja 19. öld. Danir hafa gert verulegar breytingar á sinni stjórnarskrá og meðal annars styrkt hlutverk þingsins. Endurskoðun stjórnarskrárinnar hér hefur staðið lengi en gengið afar hægt. Ljóst er að þar er við mikil tregðulögmál að etja og það er ástæða þess að hugmyndin um sérstakt stjórnlagaþing hefur hlotið talsverðan byr. Hvernig svo sem vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar verður háttað hlýtur eitt af markmiðunum með henni að vera að efla vald þingsins þannig að löggjafarvaldið geti veitt framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald. Á næstu vikum fara fram prófkjör og annars konar uppstillingar á lista fyrir komandi kosningar í apríl. Krafan um endurnýjun hefur verið hávær og sannarlega er það ljós í skammdeginu hversu margir vilja nú gefa kost á sér til þingsetu. Vissulega er þörf á mannabreytingum í þinginu. Í ljósi þeirra hamfara sem dunið hafa á þjóðinni er nauðsynlegt að ferskir vindar fái að blása um þingsali eftir kosningar í vor. Nýliðunin nægir þó ekki ein og sér. Minna má á að mikil endurnýjun varð á þingi í kjölfar síðustu kosninga. Þeirrar endurnýjunar hefur þó ekki séð verulega stað í störfum þingsins enda hefur engin breyting orðið á starfsumhverfi þess eða menningu. Snúa verður frá þeirri óheillaþróun að Alþingi Íslendinga gegni fyrst og fremst því hlutverki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið í stjórnskipun þar sem völd ráðherra eru svo mikil að lögspekingar tala um ráðherraræði. Alþingi verður að hafa skýrt hlutverk og geta veitt framkvæmdarvaldinu, þar á meðal ráðherrum, aðhald í störfum sínum.