Tilraunir Einar Már Jónsson skrifar 18. september 2009 06:00 Hinn 18. ágúst 1634 var Urbain Grandier, prestur í bænum Loudun í Frakklandi, brenndur á báli fyrir galdra. Nunnur í klaustri þar í bæ höfðu tekið upp á þeim sið að hoppa fram og aftur með hinum afkáralegustu tilburðum, æpandi „ríddu mér" og fleira í þeim dúr, og var prestinum gefið að sök að hafa ært þær með gjörningum. Þeir menn voru þó til, mitt í þessu galdrafári, sem trúðu ekki meira en svo á sekt Urbain Grandier; þeir litu kannske svo á að ungar stúlkur, dæmdar til æfilangrar vistar í klaustri, gætu tekið upp á því að hoppa um með kátleg frýjuorð á vörum, án þess að nokkrar fítonskúnstir væru með í spilinu. Urbain Grandier játaði heldur ekki á sig neina galdra, hversu mjög sem hann var pyndaður. En hann átti sér skeinuhættan andstæðing, Richelieu kardínála, sem þá var valdamesti maðurinn í landinu, og því fór sem fór. Um þetta mál hafa verið skrifaðar margar bækur, nokkrar kvikmyndir gerðar og ein ópera samin, og hafa menn velt ýmsu fyrir sér. Því hefur verið haldið fram að fyrir Richelieu hafi vakað annað og meira en að hefna fyrir einhverjar gamlar væringar, hann hafi viljað nota þetta mál til að gera tilraun, sem sé til að kanna hvort hann gæti notað galdraákærur til að berja niður pólitíska andstæðinga sína. Það gat virst nokkuð auðvelt að fyrra bragði, svo mjög óttuðust menn þá pokurinn og hans bellibrögð. Eigi að síður hafi kardínálinn litið svo á að niðurstaða tilraunarinnar væri neikvæð, það væri of varasamt og vandmeðfarið að beita þessari aðferð í pólitískum tilgangi. Þannig má vera að með dauða sínum hafi Urbain Grandier óbeint komið í veg fyrir að Frakkland yrði á þessum tíma enn skelfilegra lögregluríki en það þó varð. Á Íslandi hefur einnig verið gerð tilraun undanfarin ár, tilraun með það hvernig óbeisluð frjálshyggja virki í raun, hvaða afleiðingar það hafi á þjóðfélagið ef farið er eftir kokkabókum hennar. Og margir munu nú líta svo á, eins og kardínálinn, að niðurstöður tilraunarinnar hafi verið neikvæðar. Kannske reyna þeir að hugga sig eilítið við að örlög Íslendinga geti orðið öðrum víti til varnaðar og þeir muni þakka okkur fyrir að hafa orðið til að sýna fram á ógöngurnar. En vera má að túlkunin á niðurstöðunum fari eftir sjónarhorninu. Ekki er að efa að frá sjónarmiði þeirra ófáu sem verða nú að borga brúsann af æfintýrinu, eru kannske orðnir atvinnulausir eða gjaldþrota, búnir að missa húsnæðið, sitja fastir í skuldafeni og verða auk þess að borga einhvern klakasparnað sem enginn hafði heyrt nefndan, - frá sjónarmiði þeirra sé niðurstaðan í hæsta máta neikvæð. En frá sjónarmiði frjálshyggjumanna kann niðurstaðan að líta allt öðru vísi út og vera í rauninni hin jákvæðasta, a.m.k. enn sem komið er. Það hefur sem sé komið í ljós, að auðvelt var að afhenda fáeinum ólígörkum opinber fyrirtæki, banka og allar þær eignir sem nöfnum tjáir að nefna, án þess að nokkur gæti hindrað það, leyfa þeim að valsa með þetta allt að vild, fara á ábyrgðarlaust fjármálafyllirí, og um fram allt koma peningunum í öruggt skjól þar sem enginn mun nokkru sinni finna þá utan ólígarkarnir sjálfir. Það hefur einnig sýnt sig að auðvelt var fyrir þessa sömu ólígarka að láta greipar sópa um sparifé manna og láta ábyrgðina falla á aðra. Og ekki verður betur séð, að svo komnu máli, en að þessir fáu ólígarkar og handlangarar þeirra geti komið sér undan því að bera nokkra ábyrgð á gerðum sínum, ef einhver mál eru höfðuð eru það helst meiðyrðamál ólígarkanna sjálfra gegn þeim sem hafa vakið máls á brambolti þeirra. Hér úti í hinum stóra heimi virðist heldur enginn hafa minnstu trú á að nokkur frjálshyggjukóngur verði nokkru sinni tekinn á nokkurt bein. Síðast en ekki síst er það nú að koma í ljós æ skýrar að ný stéttaskipting er að myndast, milli fáeinna ofurauðkýfinga og almennings sem býr sífellt við verri kjör, öryggisleysi og hranalega meðhöndlun. Og sumir segja að til þess hafi leikurinn æfinlega verið gerður í frjálshyggjuæfintýrinu. Vafalaust hefðu sumir ólígarkarnir viljað halda ballinu áfram lengur, fá sér nokkra snúninga í viðbót, því þótt þeir væru enn að flytja burtu peninga þegar klukkuna vantaði fáeinar mínútur í hrun, höfðu þeir enn þá mið til að róa í, auðlindir sem þeim hafði ekki enn tekist að góma, og kannske áætlanir um klakasparnað í enn fleiri löndum. En fyrir þá er ekki öll von úti enn, svo er að sjá að fjölmiðlamenn hér úti búist við því að frjálshyggjumenn um víða veröld ætli sér að fara að dæmi Tarsans, sem voldug sýning er nú helguð í París: þeir ætli að snúa aftur. Í frumskóginn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun
Hinn 18. ágúst 1634 var Urbain Grandier, prestur í bænum Loudun í Frakklandi, brenndur á báli fyrir galdra. Nunnur í klaustri þar í bæ höfðu tekið upp á þeim sið að hoppa fram og aftur með hinum afkáralegustu tilburðum, æpandi „ríddu mér" og fleira í þeim dúr, og var prestinum gefið að sök að hafa ært þær með gjörningum. Þeir menn voru þó til, mitt í þessu galdrafári, sem trúðu ekki meira en svo á sekt Urbain Grandier; þeir litu kannske svo á að ungar stúlkur, dæmdar til æfilangrar vistar í klaustri, gætu tekið upp á því að hoppa um með kátleg frýjuorð á vörum, án þess að nokkrar fítonskúnstir væru með í spilinu. Urbain Grandier játaði heldur ekki á sig neina galdra, hversu mjög sem hann var pyndaður. En hann átti sér skeinuhættan andstæðing, Richelieu kardínála, sem þá var valdamesti maðurinn í landinu, og því fór sem fór. Um þetta mál hafa verið skrifaðar margar bækur, nokkrar kvikmyndir gerðar og ein ópera samin, og hafa menn velt ýmsu fyrir sér. Því hefur verið haldið fram að fyrir Richelieu hafi vakað annað og meira en að hefna fyrir einhverjar gamlar væringar, hann hafi viljað nota þetta mál til að gera tilraun, sem sé til að kanna hvort hann gæti notað galdraákærur til að berja niður pólitíska andstæðinga sína. Það gat virst nokkuð auðvelt að fyrra bragði, svo mjög óttuðust menn þá pokurinn og hans bellibrögð. Eigi að síður hafi kardínálinn litið svo á að niðurstaða tilraunarinnar væri neikvæð, það væri of varasamt og vandmeðfarið að beita þessari aðferð í pólitískum tilgangi. Þannig má vera að með dauða sínum hafi Urbain Grandier óbeint komið í veg fyrir að Frakkland yrði á þessum tíma enn skelfilegra lögregluríki en það þó varð. Á Íslandi hefur einnig verið gerð tilraun undanfarin ár, tilraun með það hvernig óbeisluð frjálshyggja virki í raun, hvaða afleiðingar það hafi á þjóðfélagið ef farið er eftir kokkabókum hennar. Og margir munu nú líta svo á, eins og kardínálinn, að niðurstöður tilraunarinnar hafi verið neikvæðar. Kannske reyna þeir að hugga sig eilítið við að örlög Íslendinga geti orðið öðrum víti til varnaðar og þeir muni þakka okkur fyrir að hafa orðið til að sýna fram á ógöngurnar. En vera má að túlkunin á niðurstöðunum fari eftir sjónarhorninu. Ekki er að efa að frá sjónarmiði þeirra ófáu sem verða nú að borga brúsann af æfintýrinu, eru kannske orðnir atvinnulausir eða gjaldþrota, búnir að missa húsnæðið, sitja fastir í skuldafeni og verða auk þess að borga einhvern klakasparnað sem enginn hafði heyrt nefndan, - frá sjónarmiði þeirra sé niðurstaðan í hæsta máta neikvæð. En frá sjónarmiði frjálshyggjumanna kann niðurstaðan að líta allt öðru vísi út og vera í rauninni hin jákvæðasta, a.m.k. enn sem komið er. Það hefur sem sé komið í ljós, að auðvelt var að afhenda fáeinum ólígörkum opinber fyrirtæki, banka og allar þær eignir sem nöfnum tjáir að nefna, án þess að nokkur gæti hindrað það, leyfa þeim að valsa með þetta allt að vild, fara á ábyrgðarlaust fjármálafyllirí, og um fram allt koma peningunum í öruggt skjól þar sem enginn mun nokkru sinni finna þá utan ólígarkarnir sjálfir. Það hefur einnig sýnt sig að auðvelt var fyrir þessa sömu ólígarka að láta greipar sópa um sparifé manna og láta ábyrgðina falla á aðra. Og ekki verður betur séð, að svo komnu máli, en að þessir fáu ólígarkar og handlangarar þeirra geti komið sér undan því að bera nokkra ábyrgð á gerðum sínum, ef einhver mál eru höfðuð eru það helst meiðyrðamál ólígarkanna sjálfra gegn þeim sem hafa vakið máls á brambolti þeirra. Hér úti í hinum stóra heimi virðist heldur enginn hafa minnstu trú á að nokkur frjálshyggjukóngur verði nokkru sinni tekinn á nokkurt bein. Síðast en ekki síst er það nú að koma í ljós æ skýrar að ný stéttaskipting er að myndast, milli fáeinna ofurauðkýfinga og almennings sem býr sífellt við verri kjör, öryggisleysi og hranalega meðhöndlun. Og sumir segja að til þess hafi leikurinn æfinlega verið gerður í frjálshyggjuæfintýrinu. Vafalaust hefðu sumir ólígarkarnir viljað halda ballinu áfram lengur, fá sér nokkra snúninga í viðbót, því þótt þeir væru enn að flytja burtu peninga þegar klukkuna vantaði fáeinar mínútur í hrun, höfðu þeir enn þá mið til að róa í, auðlindir sem þeim hafði ekki enn tekist að góma, og kannske áætlanir um klakasparnað í enn fleiri löndum. En fyrir þá er ekki öll von úti enn, svo er að sjá að fjölmiðlamenn hér úti búist við því að frjálshyggjumenn um víða veröld ætli sér að fara að dæmi Tarsans, sem voldug sýning er nú helguð í París: þeir ætli að snúa aftur. Í frumskóginn.