Körfubolti

Lakers vann sinn sjöunda leik í röð en Phoenix tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe sýndi á sér tunguna í nótt.
Kobe sýndi á sér tunguna í nótt. Mynd/AP

Andrew Bynum var með 21 stig og Kobe Bryant skoraði 18 stig í léttum 110-99 sigri Los Angeles Lakers á New Orleans Hornets í NBA-deildinni í nótt.

Þetta var sjöundi sigur Lakers-liðsins í röð en liðið er búið að vinna alla sex leiki sína síðan að Pau Gasol kom til baka úr meiðslum. Darren Collison var stigahæstur hjá Hornets með 20 stig en liðið tapaði þarna sínum fimmta útileik í röð.

Danilo Gallinari var með 27 stig og 10 fráköst þegar lærisveinar Mike D'Antoni hjá New York Knicks unnu 126-99 sigur á gamla liðinu hans, Phoenix Suns. David Lee (24 stig) og Al Harrington (22 stig) áttu báðir góðan leik fyrir New York sem endaði fimm leikja taphrinu.

Steve Nash var með 20 stig og 8 stoðsendingar fyrir Phoenix sem hafði unnið fjóra leiki í röð og var fyrir leikinn með besta sigurhlutfallið í deildinni.

Ray Allen fór loksins að hitta körfuna í nótt þegar hann skoraði 27 stig í 108-90 sigri Boston Celtics á Charlotte Bobcats. Kendrick Perkins var einnig öflugur með 21 stig og 12 fráköst í fimmta sigri Boston í röð. Nazr Mohammed var stigahæstur hjá Charlotte með 16 stig.

Antawn Jamison var með 30 stig og 12 fráköst og Gilbert Arenas bætti við 22 stig og 9 stoðsendingum í 106-102 sigri Washington Wizards á Toronto Raptors. Chris Bosh (22 stig, 14 fráköst), Andrea Bargnani (20 stig, 11 fráköst) og Jose Calderon (20 stig) gátu ekki komið í veg fyrir fjórða tap Toronto í röð og jafnframt það áttunda í síðustu 10 leikjum.

Carmelo Anthony (25 stig) og Chauncey Billups (22 stig) fóru fyrir liði Denver Nuggets sem vann 135-107 sigur á Golden State Warriors. Anthony Morrow var með 27 stig hjá Golden State.

Michael Beasley var með 27 stig og Dwyane Wade bætti við 22 stigum og 12 stoðsendingum í 107-100 sigri Miami Heat á Portland Trailblazers. Quentin Richardson var einnig góður með 20 stig og 8 fráköst. Greg Oden setti nýtt persónulegt met með því að taka 20 fráköst hjá Portland auk þess að skora 13 stig.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×