Körfubolti

Garnett gæti misst af úrslitakeppninni

Nordic Photos/Getty Images

Framherjinn Kevin Garnett hjá meisturum Boston Celtics verður ekki klár í slaginn með liði sínu þegar það hefur leik gegn Chicago Bulls í úrslitakeppninni á laugardagskvöldið.

"Hann verður ekki tilbúinn. Ég horfði á hann á æfingu og það er ekki möguleiki að hann verði klár í úrslitakeppnina. Við verðum að halda áfram án hans," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston í útvarpsviðtali.

Fjölmiðlar vestra hafa reynt að fá frekari skýringar á yfirlýsingum þjálfarans án árangurs og nú eru menn farnir að óttast það versta.

Garnett hefur verið andlegur leiðtogi Boston síðan hann gekk í raðir liðsins fyrir síðustu leiktíð. Hann var kjörinn varnarmaður ársins á síðustu leiktíð og fór fyrir liðinu þegar það vann 17. meistaratitilinn í sögu félagsins.

Garnett meiddist á hné í febrúar, missti úr 13 leiki, sneri aftur og spilaði fjóra leiki, en missti svo af restinni af tímabilinu.

"Kevin var reiður þegar hann heyrði þessi tíðindi. Reiður við mig, reiður við allra. Svo gerði hann sér grein fyrir þessu. Hann er svo mikill keppnismaður og það er ástæðan fyrir því að við fengum hann hingað," sagði Rivers.

Boston hefur unnið 18 leiki og tapað 7 þegar Garnett hefur ekki verið með liðinu, en vörn Boston er ekki sú sama þegar Garnett er ekki með.

Þessi tíðindi eru reiðarslag fyrir Boston-liðið og gætu átt eftir að breyta miklu þegar fram líður í úrslitakeppninni.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×