Gangan langa Guðmundur Andri Thorsson. skrifar 2. mars 2009 06:00 Ógleymanleg verður manni myndin af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þar sem hún er studd út af heimili Geirs Haarde af Össuri Skarphéðinssyni, sínum nánasta samverkamanni - og hafði risið af sjúkrabeði sínum til að bregðast við kröfu kjósenda um nýja ríkisstjórn, nýja forystu í landsmálum, ný úrræði. Að fara nú að gera eitthvað og hætta þessu ráðleysi. Þetta er ein af myndum hrunsins. Þetta er eitt af augnablikunum. Eftir á er eins og ráðherrarnir hafi verið í miðju taugaáfalli - ekki síst Geir Haarde sem öllum spurningum svaraði með: „nei nei, alls ekki, auðvitað ekki, nei nei, við viljum bara fá vinnufrið." Þetta er sterk mynd: Gangan langa. Maður sér hana fyrir sér þar sem hún gekk hægt og hetjulega skref fyrir skref út úr þessari ríkisstjórn á vit óvissunnar og studdist við styrkan arm Össurar og eigin vilja og ekki fór á milli mála hversu brothætt hún var og sterk - útkeyrð og einbeitt. Þessa daga var djarft teflt og vel. Og Ingibjörgu Sólrúnu og samverkafólki hennar tókst að skapa nýja stjórn og leiða til öndvegis Jóhönnu Sigurðardóttur, sem á það öðrum fremur skilið að verða fyrsta konan til að sitja í stóli forsætisráðherra og blómstrar í starfinu - og virkja til starfa Vinstri græn, spriklandi af fjöri og athafnaþrá. Sagt er að Ingibjörg Sólrún hafi ekki axlað sína ábyrgð. Jafnvel heyrast raddir - til dæmis frá síðbúnum Samfylkingarmönnum - sem tala eins og hún hafi fyrirgert kjörgengi sínu, megi ekki bjóða sig fram í annað sæti á lista Samfylkingar eða til formanns. Ég veit það ekki. Brást hún? Henni voru vissulega mislagðar hendur í utanríkisráðherratíð sinni; gerði að sinni vonlausa oflátungsbaráttu Halldórs Ásgrímssonar fyrir sæti í Öryggisráðinu, gekk of langt í að leggja nafn sitt og þjóðarinnar við athafnir íslenskra fjárglæframanna þegar hún sat með þeim á örvæntingarfullum blaðamannafundi í Danmörku. Og átti víst fundi með Davíð Oddssyni og Geir Haarde í aðdraganda hrunsins þar sem Davíð virðist nánast hafa verið í hlutverki Kassöndru úr grísku goðafræðinni, en sú bölvun hvíldi á Kassöndru að hún sá allt fyrir en enginn trúði spádómum hennar (sem sýnir aftur hversu rangur maður Davíð var sem Seðlabankastjóri). En Ingibjörg Sólrún gerði líka ýmislegt vel í ráðherratíð sinni, stöðvaði smánarlegan stuðning Íslendinga við Íraksstríð Bushstjórnarinnar, fordæmdi framferði Ísraelsmanna, beindi utanríkisstefnu landsins frá áralangri fylgispekt við Bandaríkjamenn og leitaði samhljóms við frændþjóðir. (Reyndar er það ráðgáta hvers vegna svo mikil fremd þykir að vera utanríkisráðherra - er það ekki leif frá þeirri tíð þegar stórkostleg upphefð þótti að geta farið til útlanda og fengið bjór og Toblerone?) Brást Ingibjörg Sólrún? Hefur hún fyrirgert foringjahlutverki sínu? Sjálfum finnst mér full snemmt að skera úr um um það. Fyrri ríkisstjórn var ekki snjallræði þó að svo kunni að hafa virst að hún væri sú eina sem staðan bauð upp á eftir óljós úrslit síðustu kosninga, og flestum hafi virst þá sem þau Geir Haarde og ISG sýndu þroska og stjórnvisku að gera hið besta úr snúinni stöðu. En þetta var pattstjórn. Ákvörðunum var slegið á frest í uppgerðarsamlæti afla sem eiga að takast á og vera okkur kjósendum andstæðir valkostir. Hafi stjórnin haft eitt sögulegt hlutverk var það að koma Íslandi í ESB og leiða okkur frá Laissez-faire-stefnu Davíðstímans - frjáls-æðinu - en það var greinilega til of mikils mælst. Sjálfstæðismenn voru ekki tilbúnir. Ekki heldur að halda áfram á Davíðsbraut. Það var eins og þeir segðu í sífellu: Æ getum við ekki talað um þetta á morgun… Einna jákvæðast við næstu kosningar er að flokkarnir komast ekki lengur upp með þann dónaskap við okkur kjósendur að „ganga óbundnir til kosninga". Skýrir valkostir eru nú í fyrsta sinn síðan 1956: Annaðhvort vinstri stjórn Samfylkingar og VG eða hægri stjórn Sjálfstæðis-flokks og Framsóknarflokks. Þegar Höskuldur hugðist sýna Sigmundi Davíð hver væri sterki maðurinn í litla hægriflokknum var útkoman að sjálfsögðu sú að Framsókn verður ekki treyst til annars en gamalkunnra refja. Brást Ingibjörg Sólrún? Hún brást að minnsta kosti við. Hún sagði af sér ráðherradómi og skapaði nýja stjórn áður en hún fór heim að sofa. Hún reyndi að starfa af heilindum í vonlausri ríkisstjórn en tók af skarið um síðir og sýndi hvers konar leiðtogi hún er: leiðtogi sem hlustar - og bregst við. Slíkur leiðtogi á að minnsta kosti rétt á því að bera það undir kjósendur hvort þeir vilja veita henni brautargengi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Ógleymanleg verður manni myndin af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þar sem hún er studd út af heimili Geirs Haarde af Össuri Skarphéðinssyni, sínum nánasta samverkamanni - og hafði risið af sjúkrabeði sínum til að bregðast við kröfu kjósenda um nýja ríkisstjórn, nýja forystu í landsmálum, ný úrræði. Að fara nú að gera eitthvað og hætta þessu ráðleysi. Þetta er ein af myndum hrunsins. Þetta er eitt af augnablikunum. Eftir á er eins og ráðherrarnir hafi verið í miðju taugaáfalli - ekki síst Geir Haarde sem öllum spurningum svaraði með: „nei nei, alls ekki, auðvitað ekki, nei nei, við viljum bara fá vinnufrið." Þetta er sterk mynd: Gangan langa. Maður sér hana fyrir sér þar sem hún gekk hægt og hetjulega skref fyrir skref út úr þessari ríkisstjórn á vit óvissunnar og studdist við styrkan arm Össurar og eigin vilja og ekki fór á milli mála hversu brothætt hún var og sterk - útkeyrð og einbeitt. Þessa daga var djarft teflt og vel. Og Ingibjörgu Sólrúnu og samverkafólki hennar tókst að skapa nýja stjórn og leiða til öndvegis Jóhönnu Sigurðardóttur, sem á það öðrum fremur skilið að verða fyrsta konan til að sitja í stóli forsætisráðherra og blómstrar í starfinu - og virkja til starfa Vinstri græn, spriklandi af fjöri og athafnaþrá. Sagt er að Ingibjörg Sólrún hafi ekki axlað sína ábyrgð. Jafnvel heyrast raddir - til dæmis frá síðbúnum Samfylkingarmönnum - sem tala eins og hún hafi fyrirgert kjörgengi sínu, megi ekki bjóða sig fram í annað sæti á lista Samfylkingar eða til formanns. Ég veit það ekki. Brást hún? Henni voru vissulega mislagðar hendur í utanríkisráðherratíð sinni; gerði að sinni vonlausa oflátungsbaráttu Halldórs Ásgrímssonar fyrir sæti í Öryggisráðinu, gekk of langt í að leggja nafn sitt og þjóðarinnar við athafnir íslenskra fjárglæframanna þegar hún sat með þeim á örvæntingarfullum blaðamannafundi í Danmörku. Og átti víst fundi með Davíð Oddssyni og Geir Haarde í aðdraganda hrunsins þar sem Davíð virðist nánast hafa verið í hlutverki Kassöndru úr grísku goðafræðinni, en sú bölvun hvíldi á Kassöndru að hún sá allt fyrir en enginn trúði spádómum hennar (sem sýnir aftur hversu rangur maður Davíð var sem Seðlabankastjóri). En Ingibjörg Sólrún gerði líka ýmislegt vel í ráðherratíð sinni, stöðvaði smánarlegan stuðning Íslendinga við Íraksstríð Bushstjórnarinnar, fordæmdi framferði Ísraelsmanna, beindi utanríkisstefnu landsins frá áralangri fylgispekt við Bandaríkjamenn og leitaði samhljóms við frændþjóðir. (Reyndar er það ráðgáta hvers vegna svo mikil fremd þykir að vera utanríkisráðherra - er það ekki leif frá þeirri tíð þegar stórkostleg upphefð þótti að geta farið til útlanda og fengið bjór og Toblerone?) Brást Ingibjörg Sólrún? Hefur hún fyrirgert foringjahlutverki sínu? Sjálfum finnst mér full snemmt að skera úr um um það. Fyrri ríkisstjórn var ekki snjallræði þó að svo kunni að hafa virst að hún væri sú eina sem staðan bauð upp á eftir óljós úrslit síðustu kosninga, og flestum hafi virst þá sem þau Geir Haarde og ISG sýndu þroska og stjórnvisku að gera hið besta úr snúinni stöðu. En þetta var pattstjórn. Ákvörðunum var slegið á frest í uppgerðarsamlæti afla sem eiga að takast á og vera okkur kjósendum andstæðir valkostir. Hafi stjórnin haft eitt sögulegt hlutverk var það að koma Íslandi í ESB og leiða okkur frá Laissez-faire-stefnu Davíðstímans - frjáls-æðinu - en það var greinilega til of mikils mælst. Sjálfstæðismenn voru ekki tilbúnir. Ekki heldur að halda áfram á Davíðsbraut. Það var eins og þeir segðu í sífellu: Æ getum við ekki talað um þetta á morgun… Einna jákvæðast við næstu kosningar er að flokkarnir komast ekki lengur upp með þann dónaskap við okkur kjósendur að „ganga óbundnir til kosninga". Skýrir valkostir eru nú í fyrsta sinn síðan 1956: Annaðhvort vinstri stjórn Samfylkingar og VG eða hægri stjórn Sjálfstæðis-flokks og Framsóknarflokks. Þegar Höskuldur hugðist sýna Sigmundi Davíð hver væri sterki maðurinn í litla hægriflokknum var útkoman að sjálfsögðu sú að Framsókn verður ekki treyst til annars en gamalkunnra refja. Brást Ingibjörg Sólrún? Hún brást að minnsta kosti við. Hún sagði af sér ráðherradómi og skapaði nýja stjórn áður en hún fór heim að sofa. Hún reyndi að starfa af heilindum í vonlausri ríkisstjórn en tók af skarið um síðir og sýndi hvers konar leiðtogi hún er: leiðtogi sem hlustar - og bregst við. Slíkur leiðtogi á að minnsta kosti rétt á því að bera það undir kjósendur hvort þeir vilja veita henni brautargengi.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun