Körfubolti

Ótrúlegur sigur Chicago á Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Derrick Rose tekur skot að körfunni í gær.
Derrick Rose tekur skot að körfunni í gær. Nordic Photos / Getty Images
Úrslitakeppnin í NBA-deildinni hófst í gær með fjórum leikjum. Óvæntustu úrslitin voru að meistarar Boston töpuðu á heimavelli fyrir Chicago, 105-103, í framlengdum leik.

Leikstjórnandinn og nýliðinn Derrick Rose átti stórleik fyrir Chicago og skoraði 36 stig í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni á ferlinum. Hann gaf einnig ellefu stoðsendingar í leiknum.

Kareem Abdul-Jabbar skoraði einnig 36 stig í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni sem er met hjá nýliða í sögu NBA-deildarinnar. Rose varð einnig aðeins annar maðurinn í sögunni til að skora minnst 35 stig og gefa stoðsendingar í sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni.

Næsti leikur liðanna er á mánudaginn en á þann dag verða nákvæmlega 23 ár liðin frá því að þessi lið mættust í úrslitakeppninni í frægum leik. Michael Jordan skoraði 63 stig í leiknum en Boston fagnaði engu að síður sigri.

„Ég vona að þetta verði til þess að við vöknum til lífsins," sagði Paul Pierce sem skoraði 23 stig fyrir Boston í leiknum. „Chicago er ekki bara sátt við að vera í úrslitakeppnina. Þeir vilja ná lengra."

Tyrus Thomas skoraði sextán stig fyrir Chicago, þar af sex af átta stigum liðsins í framlengingunni. Hann skoraði sigurkörfu leiksins þegar 51 sekúnda var eftir af framlengingunni.

Sigurinn þýðir að Chicago á nú möguleika á að slá Boston úr leik með því að vinna heimaleiki sína í rimmu liðanna.

Greinilegt er að Boston saknar Kevin Garnett sem er frá vegna meiðsla. Óvíst er hvort hann verði orðinn klár áður en úrslitakeppninni lýkur. Rajon Rando var með 29 stig í leiknum en Ray Allen átti skelfilegan dag. Hann skoraði fjögur stig og hitti úr einu af tólf skotum.

Pierce átti möguleika að tryggja Boston sigur í stöðunni 97-96 fyrir Chicago. Hann fór á vítalínuna og náði að jafna metin en klikkaði á síðara vítinu.

Þrjár aðrar rimmur hófust í gær. Dallas gerði sér lítið fyrir og vann San Antonio á útivelli, 105-97.

Þetta var fyrsti sigur Dallas á útivelli í úrslitakeppninni í þrjú ár. Josh Howard skoraði 25 stig fyrir Dallas.

Cleveland vann Detroit, 102-84. LeBron James setti niður flautuþrist í lok fyrri hálfleiks og var alls með 38 stig, átta fráköst og sjö stoðsendingar.

Houston vann Portland, 108-81. Yao Ming skoraði 24 stig fyrir Houston - öll í fyrri hálfleik.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×