Körfubolti

Hrikalegt að þurfa að sjá sigurkörfuna aftur og aftur

Dwight Howard
Dwight Howard AFP

Orlando Magic og Cleveland Cavaliers mætast þriðja sinni í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA í nótt.

Leikmenn Orlando eru eflaust enn að jafna sig eftir áfallið sem þeir urðu fyrir í fyrrinótt þegar LeBron James skoraði kraftaverkakörfuna sem tryggði Cleveland sigur í öðrum leiknum í Cleveland.

"Það er hræðilegt að þurfa að horfa upp á þetta aftur og aftur á leiðinni heim," sagði miðherjinn Dwight Howard hjá Orlando, sem átti ekki sinn besta leik fyrir Orlando í leik tvö. Staðan er 1-1 í einvíginu.

Orlando stal fyrsta leiknum í Cleveland eftir góðan endasprett og var aðeins einni sekúndu frá því að komast í 2-0 í einvíginu með næstu tvo leikina á heimavelli.

LeBron James var ekki á því að láta það gerast og stimplaði sig í sögubækur með þriggja stiga skoti sínu um leið og lokaflautið gall í fyrrakvöld.

Hann ætlar þó ekki að gleyma sér í gleðinni, enda á Cleveland mjög erfitt verkefni fyrir höndum niðri á Flórída í næstu tveimur leikjum.

"Þetta er búið og gert," sagði James, en ef næstu leikir verða eitthvað í líkingu við annan leikinn, má vel vera að áhorfendur eigi von á fleiri sögulegum skotum í einvíginu.

Þriðji leikur liðanna verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 0:30 í nótt.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×