Körfubolti

Boston stöðvaði sigurgöngu Orlando

AP

Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt þar sem hæst bar viðureign Orlando og Boston, tveggja af toppliðum deildarinnar.

Það voru meistarar Boston sem höfðu sigur 90-80 á útivelli og unnu þar með sjöunda leik sinn í röð eftir að hafa hikstað um tíma í síðasta mánuði. Tap Orlando batt jafnframt enda á sjö leikja sigurgöngu liðsins og velti því úr toppsæti NBA deildarinnar.

Paul Pierce skoraði 27 stig og hirti 10 fráköst fyrir Boston, Glen Davis setti persónulegt met í vetur með 16 stigum og Kevin Garnett var sömuleiðis með 16 stig.

Rashard Lewis skoraði 20 stig og hirti 10 fráköst fyrir Orlando en tröllið Dwight Howard var aðeins með 11 stig og 11 fráköst. Þetta var lægsta stigaskor Orlando í leik á tímabilinu og hafði það mikið með varnarleik meistaranna að gera.

"Ég er vanur að láta leikmennina bera ábyrgð á hlutnum úti á vellinum, en ég tek þetta alveg á mig," sagði Stan Van Gundy, þjálfari Orlando. "Í þetta sinn er það hinsvegar ég sem ber ábyrgðina. Það var undir mér komið að finna leiðir fyrir okkur til að fá góð skot og ég er svekktur út í sjálfan mig," sagði Van Gundy fúll.

Boston vann aðeins tvo af níu leikjum sínum á undan sjö leikja sigurgöngu sinni nú.

Los Angeles Lakers vann auðveldan stórsigur á Washington á heimavelli sínum 117-97. Andrew Bynum var stigahæstur hjá Lakers annan leikinn í röð með 23 stig og 13 fráköst og Pau Gasol var með 18 stig. Antawn Jamison skoraði 19 stig fyrir Washington.

Á miðnætti í nótt verður Stöð 2 Sport með beina útsendingu frá leik Detroit Pistons og Dallas Mavericks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×