Körfubolti

Tapar Denver tólfta leiknum í röð gegn Lakers?

Carmelo Anthony var stórkostlegur í fyrsta leiknum og skoraði 39 stig
Carmelo Anthony var stórkostlegur í fyrsta leiknum og skoraði 39 stig NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant og félagar í LA Lakers sluppu með skrekkinn þegar þeir lögðu Denver Nuggets 105-103 í fyrsta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA í fyrrakvöld.

Kobe Bryant skoraði 40 stig fyrir Lakers í leiknum, þar af sex stig á vítalínunni á síðustu hálfu mínútunni.

"Við sluppum fyrir horn í þetta skiptið. Svona er þetta stundum," sagði Bryant glottandi eftir leikinn.

Denver var með fyrsta leikinn í hendi sér frá fyrstu mínútu og það var fremur fyrir klaufaskap Denver en hetjuskap Lakers sem staðan er 1-0 fyrir Vesturdeildarmeistarana.

Annar leikur liðanna er í Staples Center í Los Angeles klukkan eitt í nótt og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Denver hefur tapað ellefu leikjum í röð fyrir Lakers í úrslitakeppni - þar af öllum fjórum í fyrra þegar Lakers sópaði liðinu út 4-0 í fyrstu umferð.

Einvígið í ár ætti þó að verða eitthvað meira spennandi ef marka má fyrsta leikinn.

"Við spiluðum vel í 46,5 mínútur en misstum leikinn úr höndum okkar. Það var samt margt mjög jákvætt við þennan leik," sagði Kenyon Martin leikmaður Denver, sem verið hefur tæpur vegna meiðsla líkt og J.R. Smith félagi hans.

"Við verðum bara að útrýma þessum mistökum og halda áfram. Það er það góða við svona einvígi - það kemur alltaf annar leikur," sagði Martin.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×