Körfubolti

McGrady ekki lengur númer 1 - spilar í peysu númer 3

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tracy McGrady í leik með Houston Rockets.
Tracy McGrady í leik með Houston Rockets. Mynd/AFP

Tracy McGrady stjörnuleikmaður Houston Rockets ætlar að skipta um númer á næsta tímabili. McGrady hefur alltaf spilað númer 1 en hækkar treyjunúmer sitt nú upp í 3. Nýr leikmaður Houston-liðsins, Trevor Ariza, spilar í númer 1 hjá Rockets-liðinu á næsta vetri.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem McGrady verður í treyju númer 3 en hann lék í þessu númer í menntaskóla. McGrady segist vera að breyta um númer til þess að vekja athygli á mannúðarverkefnum sínum en hann er að gefa út heimildarmynd um för sína til Darfur í Súdan sumarið 2007.

McGrady hefur styrkt mannúðarverkefni í Darfur um 75 þúsund dollara eða um 9,6 milljónir íslenskar króna. Heimildarmyndin hans heitir einmitt "3 Points" og kemur hún út í haust.

McGrady getur ekki byrjað að spila fyrr en á nýju ári en hann fór í aðgerð á hné í febrúar og missti alveg af úrslitakeppninni. Houston-liðið fór engu að síður alla leið í undanúrslit Vestur-deildarinnar án hans.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×