Hjálpartraust Þorvaldur Gylfason skrifar 24. september 2009 06:00 Vaknaðu, sagði konan mín. Klukkan var þrjú um nótt. Ég hlýddi og hlustaði með henni á dynki og brothljóð úr nærliggjandi íbúð, skerandi skaðræðisvein og formælingar með málvillum, fimm á Richter. Ástarfuglarnir voru eina ferðina enn að skiptast á húsgögnum, postulíni og öðru lauslegu líkt og Liz Taylor og Richard Burton gerðu stundum í svítunni sinni á Dorchesterhótelinu í London. Við hringjum í lögregluna, sagði Anna. Eigum við ekki heldur að leyfa þeim að drepa hvort annað? sagði ég. Við fórum aftur að sofa, en þó ekki fyrr en við sáum konuna fara út. Þeir vita það núnaÞessi litla nætursaga rifjast upp fyrir mér nú að gefnu tilefni. Hví skyldu skattgreiðendur í öðrum löndum hafa hug á að rétta Íslandi hjálparhönd eins og allt er hér í pottinn búið? - frekar en mig langaði að hringja í lögregluna um árið. Augu umheimsins hvíla á Íslandi. Mikill fjöldi erlendra manna hefur beðið stórfellt fjárhagstjón af viðskiptum við íslenzka fjárglæframenn. Málið myndi horfa öðruvísi við útlendingum, hefðu íslenzk stjórnvöld strax við hrunið snúizt á sveif með fólkinu í landinu gegn eigendum og stjórnendum banka og annarra stórfyrirtækja, sem keyrðu landið í kaf. Hefðu stjórnvöld tekið máli fólksins og stofnað til trúverðugrar rannsóknar á hruninu og aðdraganda þess undir yfirstjórn óháðra erlendra manna, helzt fyrir opnum tjöldum, í stað þess að draga lappirnar í lítt dulbúinni meðvirkni með ábyrgðarmönnum hrunsins, nyti Ísland kannski meiri samúðar og skilnings úti í heimi. En því er ekki að heilsa. Ríkisstjórnin gerir sér að því er virðist að góðu þann rannsóknargrunn, sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði í fyrri ríkisstjórn í þeirri augljósu von, að ekkert óþægilegt kæmi upp úr krafsinu. Allir Íslendingar vita, að réttarkerfið er skilgetið afkvæmi gömlu helmingaskiptaflokkanna, enda nýtur það jafnlítils álits meðal almennings og Alþingi samkvæmt skoðanakönnunum Capacents. Útlendingar vissu þetta ekki áður, en þeir vita þetta núna, þar eð þeim hefur gefizt ærið tilefni til að kynna sér innviði íslenzks samfélags. Spillingin á Íslandi er nú altöluð í öðrum löndum. Erlendir bankar hafa nú hrundið af stað hryðju málsókna á hendur gömlu bönkunum og ríkinu. Hugsanlega hefði verið hægt að komast hjá slíkum málaferlum, svo sem tókst til dæmis í Argentínu eftir hrunið þar 1999-2002, en Ísland nýtur ekki trausts. Jafnvel Norðurlöndin virðast ekki kæra sig um að hjálpa til umfram gjaldeyrislánin, sem samið hefur verið um, og þau lán fást ekki reidd fram, þar eð stjórnvöld hafa ekki staðið til fulls við sinn hlut í efnahagsáætluninni, sem þau sömdu um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember 2008. Ríkisstjórnir Norðurlanda hafa sömu upplýsingar um ástandið hér og við hin. Og hvað sjá þær? Þær sjá þjófabæli, þar sem fáeinir menn létu greipar sópa og keyrðu fjárhag fjölda heimila og fyrirtækja í kaf með stjórnvöld - einkum Sjálfstæðisflokkinn, samstarfsflokka hans og sljóa, meðvirka stjórnsýslu - ýmist í ökusætinu eða eftirdragi. Viðskiptalíkan víkingannaDæmin eru mörg. Nýir eigendur tóku við Sjóvá 2005 og réðu til sín forstjóra beint frá Viðskiptaráði Íslands. Hann varð síðar formaður Samtaka atvinnulífsins og stjórnarformaður Árvakurs í umboði Björgólfs Guðmundssonar. Margir þóttust vita, að eigendurnir ætluðu sér að braska með bótasjóðina. Eigendurnir tóku tuttugu milljarða króna arð út úr félaginu og skildu þannig við, að ríkissjóður tók félagið yfir með sautján milljarða króna framlagi frá skattgreiðendum til að komast hjá gjaldþroti. Eigendur og stjórnendur félagsins hefðu alveg eins getað rænt ríkissjóð milliliðalaust. Og tökum FL Group: þar sat í stjórn fyrrum oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, allir sjóðir tæmdust, og félagið fór í þrot, en oddvitinn hafði þá dregið sig hljóðlega í hlé. Sjóður 9 í Glitni? Landsbankinn allur? Sama saga. Þetta var viðskiptalíkan víkinganna: þeir keyptu sér frið til að braska með eigur annarra með því meðal annars að raða stjórnmálamönnum í stjórnir fyrirtækja sinna. Stjórnmálastéttin hafði áður, með lögfestingu kvótakerfisins, lagt blessun sína yfir brask með eigur annarra og meðfylgjandi mannréttindabrot. Víkingum og öðrum kann að hafa yfirsézt, að dómsmálin gegn þeim verða sum trúlega háð í erlendum réttarsölum. Fólkið í landinu þarf þó því miður að una því, að Ísland er rúið trausti, ekki bara sökudólgarnir. Ríkisstjórnir Norðurlanda virðast líta svo á, að Ísland þurfi líkt og önnur lönd að ávinna sér og verðskulda þá hjálp, sem landinu er veitt. Hjálpartraust er eins og lánstraust. Hvorugt kemur af sjálfu sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Vaknaðu, sagði konan mín. Klukkan var þrjú um nótt. Ég hlýddi og hlustaði með henni á dynki og brothljóð úr nærliggjandi íbúð, skerandi skaðræðisvein og formælingar með málvillum, fimm á Richter. Ástarfuglarnir voru eina ferðina enn að skiptast á húsgögnum, postulíni og öðru lauslegu líkt og Liz Taylor og Richard Burton gerðu stundum í svítunni sinni á Dorchesterhótelinu í London. Við hringjum í lögregluna, sagði Anna. Eigum við ekki heldur að leyfa þeim að drepa hvort annað? sagði ég. Við fórum aftur að sofa, en þó ekki fyrr en við sáum konuna fara út. Þeir vita það núnaÞessi litla nætursaga rifjast upp fyrir mér nú að gefnu tilefni. Hví skyldu skattgreiðendur í öðrum löndum hafa hug á að rétta Íslandi hjálparhönd eins og allt er hér í pottinn búið? - frekar en mig langaði að hringja í lögregluna um árið. Augu umheimsins hvíla á Íslandi. Mikill fjöldi erlendra manna hefur beðið stórfellt fjárhagstjón af viðskiptum við íslenzka fjárglæframenn. Málið myndi horfa öðruvísi við útlendingum, hefðu íslenzk stjórnvöld strax við hrunið snúizt á sveif með fólkinu í landinu gegn eigendum og stjórnendum banka og annarra stórfyrirtækja, sem keyrðu landið í kaf. Hefðu stjórnvöld tekið máli fólksins og stofnað til trúverðugrar rannsóknar á hruninu og aðdraganda þess undir yfirstjórn óháðra erlendra manna, helzt fyrir opnum tjöldum, í stað þess að draga lappirnar í lítt dulbúinni meðvirkni með ábyrgðarmönnum hrunsins, nyti Ísland kannski meiri samúðar og skilnings úti í heimi. En því er ekki að heilsa. Ríkisstjórnin gerir sér að því er virðist að góðu þann rannsóknargrunn, sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði í fyrri ríkisstjórn í þeirri augljósu von, að ekkert óþægilegt kæmi upp úr krafsinu. Allir Íslendingar vita, að réttarkerfið er skilgetið afkvæmi gömlu helmingaskiptaflokkanna, enda nýtur það jafnlítils álits meðal almennings og Alþingi samkvæmt skoðanakönnunum Capacents. Útlendingar vissu þetta ekki áður, en þeir vita þetta núna, þar eð þeim hefur gefizt ærið tilefni til að kynna sér innviði íslenzks samfélags. Spillingin á Íslandi er nú altöluð í öðrum löndum. Erlendir bankar hafa nú hrundið af stað hryðju málsókna á hendur gömlu bönkunum og ríkinu. Hugsanlega hefði verið hægt að komast hjá slíkum málaferlum, svo sem tókst til dæmis í Argentínu eftir hrunið þar 1999-2002, en Ísland nýtur ekki trausts. Jafnvel Norðurlöndin virðast ekki kæra sig um að hjálpa til umfram gjaldeyrislánin, sem samið hefur verið um, og þau lán fást ekki reidd fram, þar eð stjórnvöld hafa ekki staðið til fulls við sinn hlut í efnahagsáætluninni, sem þau sömdu um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember 2008. Ríkisstjórnir Norðurlanda hafa sömu upplýsingar um ástandið hér og við hin. Og hvað sjá þær? Þær sjá þjófabæli, þar sem fáeinir menn létu greipar sópa og keyrðu fjárhag fjölda heimila og fyrirtækja í kaf með stjórnvöld - einkum Sjálfstæðisflokkinn, samstarfsflokka hans og sljóa, meðvirka stjórnsýslu - ýmist í ökusætinu eða eftirdragi. Viðskiptalíkan víkingannaDæmin eru mörg. Nýir eigendur tóku við Sjóvá 2005 og réðu til sín forstjóra beint frá Viðskiptaráði Íslands. Hann varð síðar formaður Samtaka atvinnulífsins og stjórnarformaður Árvakurs í umboði Björgólfs Guðmundssonar. Margir þóttust vita, að eigendurnir ætluðu sér að braska með bótasjóðina. Eigendurnir tóku tuttugu milljarða króna arð út úr félaginu og skildu þannig við, að ríkissjóður tók félagið yfir með sautján milljarða króna framlagi frá skattgreiðendum til að komast hjá gjaldþroti. Eigendur og stjórnendur félagsins hefðu alveg eins getað rænt ríkissjóð milliliðalaust. Og tökum FL Group: þar sat í stjórn fyrrum oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, allir sjóðir tæmdust, og félagið fór í þrot, en oddvitinn hafði þá dregið sig hljóðlega í hlé. Sjóður 9 í Glitni? Landsbankinn allur? Sama saga. Þetta var viðskiptalíkan víkinganna: þeir keyptu sér frið til að braska með eigur annarra með því meðal annars að raða stjórnmálamönnum í stjórnir fyrirtækja sinna. Stjórnmálastéttin hafði áður, með lögfestingu kvótakerfisins, lagt blessun sína yfir brask með eigur annarra og meðfylgjandi mannréttindabrot. Víkingum og öðrum kann að hafa yfirsézt, að dómsmálin gegn þeim verða sum trúlega háð í erlendum réttarsölum. Fólkið í landinu þarf þó því miður að una því, að Ísland er rúið trausti, ekki bara sökudólgarnir. Ríkisstjórnir Norðurlanda virðast líta svo á, að Ísland þurfi líkt og önnur lönd að ávinna sér og verðskulda þá hjálp, sem landinu er veitt. Hjálpartraust er eins og lánstraust. Hvorugt kemur af sjálfu sér.