Íslenski boltinn

Rakel: Má búast við góðri stemningu í rútunni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Stefán
Mynd/Stefán

„Þetta gerist ekki mikið sætara," sagði Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Þórs/KA, eftir 2-1 útisigurinn á Val í kvöld. Norðankonur skoruðu sigurmarkið í blálokin og opnuðu baráttuna á toppi deildarinnar upp á gátt.

„Það var dásamlegt að sjá boltann í netinu þarna í lokin. Það var svakalegur léttir. Valsstelpurnar höfðu sótt mjög stíft svo þetta var alveg frábært. Fyrir þennan leik ætluðum við að opna baráttuna á toppnum," sagði Rakel.

Valur, Breiðablik og Stjarnan eru nú öll jöfn að stigum á toppi deildarinnar og Þór/KA kemur svo þremur stigum þar á eftir. „Það má búast við því að stemningin í rútunni verði góð alla leiðina heim," sagði Rakel. „Við erum mjög ánægðar með fyrri hálfleikinn hjá okkur. Við hefðum í raun og veru getað klárað leikinn í honum. Svo vorum við ekki alveg eins ákveðnar í seinni hálfleiknum og Valur komst betur inn í leikinn. Við duttum samt ekkert niður þrátt fyrir að þær jöfnuðu," sagði Rakel.

Mateja Zver skoraði bæði mörk Þórs/KA í kvöld en Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði fyrir Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×