Körfubolti

Lakers og San Antonio gerðu góða ferð vestur

Kobe Bryant var veikur í kvöld og LeBron James spilaði sóknarleikinn eins og hann væri veikur
Kobe Bryant var veikur í kvöld og LeBron James spilaði sóknarleikinn eins og hann væri veikur NordicPhotos/GettyImages

LA Lakers og San Antonio Spurs, tvö af bestu liðum Vesturdeildarinnar í NBA, gerðu góða ferð yfir á austurströndina í kvöld þegar þau skelltu tveimur bestu liðunum þeim megin í landinu - Cleveland og Boston.

Einvígis Cleveland og Lakers hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu, en þar mættust þeir LeBron James og Kobe Bryant sem almennt eru taldir tveir bestu leikmenn deildarinnar.

Cleveland hafði unnið alla 23 leiki sína á heimavelli fyrir leik kvöldsins, en Lakers-liðið spilaði mjög vel í kvöld þrátt fyrir veikindi Kobe Bryant og vann nokkuð sannfærandi sigur 101-91.

Kobe Bryant skoraði 19 stig þrátt fyrir veikindin en það var Lamar Odom sem var maður leiksins hjá Lakers og skilaði sínum besta leik í vetur. Odom skoraði 28 stig og hirti 17 fráköst og Pau Gasol skoraði 18 stig og hirti 12 fráköst.

Zydrunas Ilgauskas skoraði 22 stig fyrir Cleveland og þeir Wally Szczerbiak og LeBron James skoruðu 16 hvor. James var auk þess með 12 stoðsendingar og 8 fráköst, en hann hitti aðeins úr 5 af 20 skotum sínum í sóknarleiknum.

Lakers-liðið hefur því stöðvað þrjár ótrúlegar sigurgöngur í vetur. Fyrst stöðvaði liðið 19 leikja sigurgöngu Boston á jóladag, þá 12 leikja sigurgöngu Boston á fimmtudagskvöldið - og nú síðast 23 leikja heimaleikjarispu Cleveland, sem hafði ekki tapað heima síðan í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn Washingon síðasta vor.



AP

Stór sigur hjá San Antonio

Meistaralið síðustu tveggja ára, Boston og San Antonio, mættust í Boston og þar vann San Antonio sigur 105-99 þar sem liðið skoraði 11 stig á síðustu 45 sekúndum leiksins.

Leikmenn San Antonio komu frískir inn í leikinn eftir að allir lykilmenn liðsins höfðu verið hvíldir leikinn á undan og það skilaði sér gegn Boston.

Tim Duncan skoraði 23 stig og hirti 23 fráköst fyrir San Antonio og Matt Bonner skoraði einnig 23 stig, sem var það næstmesta sem hann hefur skorað í leik á ferlinum.

Kevin Garnett var bestur hjá Boston með 26 stig og 12 fráköst og Paul Pierce skoraði 19 stig. Þetta var annað tap Boston á heimavelli á nokkrum dögum, því á fimmtudagskvöldið tapaði liðið þar fyrir Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×