Körfubolti

Howard: Við förum í sjötta leikinn í Los Angeles

Ómar Þorgeirsson skrifar
Dwight Howard.
Dwight Howard. Nordic photos/AFP

Miðherjinn kröftugi Dwight Howard hjá Orlando Magic er ekki tilbúinn að afhenda LA Lakers fimmtánda NBA titil sinn á gullfati og hefur fulla trú á því að Magic vinni fimmta leik liðanna á heimavelli sínum í Orlando í nótt.

„Ekki bjuggust þið við því að einvígið myndi klárast í fimm leikjum? Það kemur ekki til greina og ég hef ekki einu sinni velt þeim möguleika fyrir mér. Ég trúi því að við förum í sjötta leikinn til Los Angeles," segir Howard ákveðinn.

Stan Van Gundy þjálfari hjá Magic tekur í sama streng og Howard og segir sína menn verða að trúa því að þeir geti komist aftur inn í úrslitaeinvígið þrátt fyrir að vera 1-3 undir í leikjum.

„Það er algjört grundvallar atriði að þegar menn eru í sömu stöðu og við erum núna að trúa því að við getum ekki aðeins unnið næsta leik heldur líka NBA titilinn. Ef þú hefur ekki trú á því að geta farið alla leið, þá hefurðu pottþétt ekki erindi sem erfiði. Þú gefst þá bara upp," segir Van Gundy í samtali við ESPN.

Samkvæmt heimildum ESPN kallaði Van Gundy lið sitt til fundar eftir tapið í fjórða leiknum og minntist í hvatningarræðu sinni meðal annars á sögu af Greg nokkrum LeMond sem vann Tour de France hjólreiðakeppnina árið 1989 upp úr vonlausri stöðu. Hvort að ræðan nái að hvetja leikmenn Magic til sigurs í nótt, kemur í ljós.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×