Körfubolti

Denver Nuggets í vandræðum - höllin upptekin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Denver liðið hefur staðið sig frábærlega í úrslitakeppninni í ár.
Denver liðið hefur staðið sig frábærlega í úrslitakeppninni í ár. Mynd/GettyImages

Árangur Denver Nuggets í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta hefur komið mörgum á óvart og engum meira en eiganda sínum og umsjónarmönnum Pepsi Center, heimahallar liðsins. Höllin er nefnilega upptekin á mánudagskvöldið þegar Denver á að spila á móti Los Angeles Lakers í fjórða leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Það eru fjölbragðaglímumenn sem hafa bókað höllina næsta mánudag en það hefur verið ljóst síðan 15. ágúst að þeir ætluðu að halda mikla sýningu þennan dag. Glímukapparnir eru þegar búnir að að selja tíu þúsund miða og búast við fullu húsi.

Bandarískir fjölmiðlar gera sér mat úr því að eigandi Denver hafi nú ekki haft mikla trú á sínu liði enda búinn að horfa upp á liðið sitt detta út úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar fimm ár í röð. Denver-liðið hefur hinsvegar smollið saman í vetur og er nú komið í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta sinn síðan árið 1985.

NBA-deildin hefur aðeins gefið það út að leikurinn fari fram 25. maí næstkomandi og að forráðamenn Denver-liðsins og fjölbragðaglímukapparnir verði bara að koma sér saman um lausn á þessu vandamáli.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×