Körfubolti

LeBron James talinn líklegastur

LeBron James hefur verið stórkostlegur með Cleveland í vetur
LeBron James hefur verið stórkostlegur með Cleveland í vetur Nordic Photos/Getty Images

Nú eru blaðamenn vestanhafs að leggja lokahönd á að skila inn atkvæðaseðlum sínum í kjörinu á verðmætasta leikmanni NBA deildarinnar í vetur.

Yfirgnæfandi líkur eru taldar á því að það verði LeBron James hjá Cleveland Cavaliers sem hreppir hnossið að þessu sinni, en þessi fjölhæfa ofurstjarna hefur aldrei leikið betur en í vetur.

Tölfræði James er að venju ótrúleg. Kappinn skorar 28,3 stig að meðaltali í leik, hirðir 7,6 fráköst, gefur 7,3 stoðsendingar, stelur 1,7 boltum og ver yfir 1 skot í leik. Þá hefur hann bætt sig mikið í mikilvægum þáttum leiksins eins og varnarleik og vítanýtingu.

James hefur vissulega skilað ótrúlegri tölfræði áður, en það er samt bætt gengi Cleveland sem gerir það að verkum að James þykir nær öruggur um að verða valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar í ár (MVP).

Ef Cleveland heldur áfram á sama róli mun það nefnilega vinna 66 leiki í vetur - hvorki meira né minna en 21 leik fleiri en síðasta vetur. Liðið hefur bætt við sig mannskap frá síðasta tímabili, en flestir þakka LeBron James að mestu fyrir gott gengi liðsins.

James er líka að komast í sögubækur í vetur fyrir annað merkilegt framlag til leiksins. Ef svo fer sem horfir verður hann aðeins fjórði leikmaðurinn í nútímasögu NBA til að leiða lið sitt í fimm helstu tölfræðiþáttum (stigum, fráköstum, stoðsendingum, stolnum boltum og vörðum skotum).

Það hafa aðeins þeir Dave Cowens (Boston 1977-78), Scottie Pippen (Chicago 1994-95) og Kevin Garnett (Minnesota 2002-03) afrekað áður.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×