Körfubolti

Yao Ming úr leik hjá Houston

Yao Ming er enn og aftur kominn á meiðslalistann hjá Houston
Yao Ming er enn og aftur kominn á meiðslalistann hjá Houston Nordic Photos/Getty Images

Kínverski risinn Yao Ming kemur ekki meira við sögu hja Houston Rockets í úrslitakeppninni eftir að í ljós kom að hann er með brákað bein í fæti.

Yao meiddist í þriðja leik Houston og LA Lakers á föstudagskvöldið og verður 8-12 vikur að jafna sig að sögn forráðamanna Houston. Liðin mætast í fjórða leiknum í kvöld.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lykilmenn Houston meiðast á lykilaugnablikum, en þeir Yao Ming og Tracy McGrady hafa átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin ár og því hefur liðið aldrei náð að standa undir væntingum í úrslitakeppninni. 

Yao Ming kom inn í NBA deildinni árið 2002 en var nú í fyrsta sinn á ferlinum að taka þátt í annari umferð úrslitakeppninnar. Hann er með 19 stig og 9 fráköst að meðaltali í leik á sjö ára ferli.

Houston tekur á móti LA Lakers í fjórða leik liðanna í úrslitakeppninni í kvöld og er undir 2-1 í einvíginu eftir að hafa unnið fyrsta leikinn í Los Angeles.

Varamaður Yao Ming, Dikembe Mutombo, meiddist í fyrstu umferðinni og er búinn að leggja skóna á hilluna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×