Körfubolti

Jordan, Robinson og Stockton í heiðurshöllina

Michael Jordan sækir hér að John Stockton í lokaúrslitum NBA deildarinnar árið 1997
Michael Jordan sækir hér að John Stockton í lokaúrslitum NBA deildarinnar árið 1997 Nordic Photos/Getty Images

Í dag var tilkynnt hvaða menn fengju sæti í heiðurshöll körfuboltans í Bandaríkjunum árið 2009. Nokkur þekkt nöfn fengu sæti í höllinni að þessu sinni.

Þekktasta nafnið á listanum í ár var sjálfur Michael Jordan, en auk hans voru þeir David Robinson, John Stockton og Jerry Sloan sæmdir þessum mikla heiðri.

Michael Jordan þarf líklega ekki að kynna sérstaklega, en hann er einn þekktasti og besti íþróttamaður sögunnar.

Jordan spilaði í NBA deildinni í 15 ár, lengst af með Chicago Bulls, og vann sex meistaratitla sem leikmaður Bulls. Jordan var tíu sinnum stigahæsti leikmaður deildarinnar, fimm sinnum verðmætasti leikmaður deildarinnar og vann titil í háskólaboltanum og tvö Ólympíugull með Bandaríkjamönnum.

David Robinson varð tvisvar NBA meistari með liði San Antonio Spurs þar sem hann lék allan sinn feril. Robinson var kjörinn nýliði ársins þegar hann kom inn í deildina, var tíu sinnum í stjörnuilðinu, varð einu sinni stigakóngur og vann tvö Ólympíugull.

John Stockton er einn besti leikstjórnandi í sögu körfuboltans og hefur gefið fleiri stoðsendingar (15,806) og stolið fleiri boltum (3,265) en nokkur annar leikmaður í sögunni. Hann á flest met sem tengjast stoðsendingum í deildinni, en þeir Stockton, Jordan og Robinson voru allir valdir í lið 50 bestu leikmanna allra tíma í NBA deildinni sem tilkynnt var á síðasta áratug.

Þá var Jerry Sloan þjálfari Utah Jazz valinn í heiðurshöllina að þessu sinni. Sloan er sá þjálfari sem lengst hefur þjálfað sama liðið í stærstu hópíþróttagreinum Bandaríkjanna og hefur verið við stjórnvölinn hjá Jazz síðan um miðjan níunda áratuginn. Hann er eini þjálfarinn í sögu NBA til að ná 1000 sigurleikjum með einu og sama liðinu.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×