Körfubolti

NBA í nótt: Orlando enn taplaust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard, leikmaður Orlando.
Dwight Howard, leikmaður Orlando. Nordic Photos / Getty Images
Orlando Magic vann í nótt góðan sigur á Toronto Raptors, 126-116, í NBA-deildinni í nótt en Orlando setti alls niður sautján þrista í leiknum.

Jameer Nelson var með 30 stig í leiknum og JJ redick skoraði alls 27 stig. Báðir settu niður fimm þrista í leiknum, sem og Ryan Anderson sem skoraði alls 20 stig. Dwight Howard var með 24 stig og ellefu fráköst.

Orlando vann alla átta leiki sína á undirbúningstímabilinu og hefur unnið alla þrjá leiki sína í deildinni síðan hún hófst í síðustu viku.

Chris Bosh var stigahæstur hjá Toronto með 35 stig og sextán fráköst og Andrea Bargnani var með 26 stig. Hedo Turkoglu, fyrrum leikmaður Orlando, skoraði nítján stig fyrir sitt nýja félag.

Vince Carter skoraði sextán stig á fyrstu fimmtán mínútum leiksins en þá fór hann af velli eftir að hann sneri sig á ökkla.

Boston er einnig taplaust en liðið vann New Orleans í nótt, 97-87. Paul Pierce var með 27 stig en Chris Paul skoraði 22 stig og var með átta stoðsendingar fyrir New Orleans.

Miami vann Chicago, 95-87. Dwyane Wade skoraði 25 stig og hefur nú alls skorað 10.005 stig á sínum ferli. Udonis Haslem bætti við nítján stigum og tók ellefu fráköst þó svo að hann hafi ekki verið í byrjunarliðinu. Miami er taplaust enn taplaust á tímabilinu.

Denver vann Memphis, 133-123, þar sem Carmelo Anthony skoraði 42 stig fyrir Denver. OJ Mayo skoraði 40 stig fyrir Memphis.

Phoenix vann Minnesota, 120-112. Channing Frye setti niður þrjá þrista í leiknum og skoraði 25 stig. Jason Richardson skoraði 23 stig fyrir Phoenix sem er enn taplaust á tímabilinu. Grant Hill var með 23 stig, Amare Stoudemire nítján og Steve Nash fjórtán stig og fjórtán stoðsendingar.

LA Lakers vann Atlanta, 118-110. Kobe Bryant fór á kostum og skoraði 41 stig og tók átta fráköst. Andrew Bynum var með 21 stig. Joe Johnson skoraði 27 stig fyrir Atlanta, þar af átján í fyrsta leikhluta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×