„Ví heftú kill somþíng!“ Guðmundur Andri Thorsson skrifar 6. apríl 2009 06:00 Ví heftú kill somþíng!" sagði hann kátur við sænska sjónvarpsmanninn í þættinum um makrílveiðar og rányrkju Íslendinga á þeim fiski. Svo skaut hann svífandi fugl og hamfletti hann á staðnum með fumlausum handtökum - mikið að hann stýfði fuglinn ekki úr hnefa líka. Þetta kom víst ekki alveg nógu vel út. Samt var hann bara þarna á bátnum sínum að sýna útlendingnum austfirsku dýrðina - fjöllin, himininn, hafið, fuglana og manninn: einingu þessa alls. Hann var að sýna útlendingnum að þetta væri Lífið; hér væri allt sem einn karlmaður þyrfti - hér væri hann kóngur. „Ví heftú kill somþíng," sagði hann kampakátur því nú átti að kóróna þessa dýrðarstund og sýna hvernig maður þyrfti ekki nema lyfta byssunni og miða vel og þá væri komin björg í bú. Hann var að sýna sig: sýna útlendingnum veiðimann í sínu náttúrulega umhverfi - íslenskt náttúrubarn, frum-Íslendinginn sem lifir á landsins gæðum, nýtir gjafir náttúrunnar. Hann var að leika Íslending. Það örlaði á ofleik en þó fór ekki á milli mála að hann ímyndaði sér að hann væri öfundsverður; gott ef ekki sjálfur draumur allra karlmanna, hann væri frjáls og lífið væri samfelldur veiðiskapur sem líður trallala frá einni bráð til annarrar. Sænski sjónvarpsmaðurinn sá hins vegar aðra sögu. Hann sá bara verksmiðjustjórann í fiskimjölsverksmiðjunni. Hann sá holdgerving óskynsamlegrar stundarnýtingar - þeirrar iðju að moka upp ólöglega dýrmætum matfiski og búa til úr honum ódýrt hráefni handa eldislaxi. Hann sá rányrkjugreifa sem getur ekki ódrepandi verið - getur ekki farið á fögrum degi út á sjó án þess að þurfa að plaffa á saklaust fuglsgrey, friðlaus af drápsfýsn. Hann sá Íslendinginn eins og þjóðir Evrópu gera. Hann sá íslenska karlmanninn sem hálfsturlaður óð frá einni bráð til annarrar, eins og fullur kall á balli. Allt er hér í samhengi: Icesave-reikningarnir voru rányrkja á sparifé almennings í Evrópu. Kaupin á grónum fyrirtækjum annarra samfélaga - fjármögnuð með glórulausum lánum sem íslenska þjóðin þarf að greiða - voru rányrkja á verðmætum. Hömlulaust athæfi hálfsturlaðra manna. Ví heftú kill somþíng: Makríl - sparifé - múkka. (Eða bara Jöklu: Kárahnjúkavirkjun var reist með því að veita svo miklu af henni í Lagarfljót að báðar árnar stórspillast og framburður Jöklu hættir að fara til hafs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir okkar gjöfulu fiskimið, svo fyllist lónið um síðir og landinu er spillt til einskis. ) Frá einni bráð til annarrar. Kannski er ofmælt að kalla Ísland veiðimannasamfélag, því að slík samfélög byggjast á sjálfbærri nýtingu á náttúrunni. Íslendingar hafa hins vegar ýmis einkenni hirðingjasamfélaga sem setja niður búðir sínar með búsmala sinn á gróna staði til bráðabirgða, beita skepnum sínum á landið uns þrautnagað er, halda svo af stað á nýjar lendur. Sumt í búsetuháttum Íslendinga bendir til að þeir séu alltaf á leiðinni eitthvert annað. En á meðan verður að drepa eitthvað - bara eitthvað. Allavega „ðe fokking veils," eins og maðurinn í myndinni sagði: hvalir eru orðnir tákn þess sem bara hreinlega verður að drepa. Stundum gæti maður haldið að hvalir séu erfðafjendur Íslendinga, og frásagnir af gegndarlausu fiskáti þeirra eru slíkar að maður skilur eiginlega ekki hvernig þorskurinn - sem er ekki skepna skýr - fór eiginlega að því að lifa öll þessi árþúsund þegar engar hvalveiðar voru hér við land. Og nú er tekist á um langreyðar og hrefnur. Á að halda áfram rányrkjunni og hneyksla þjóðir heims - eða nýta þekkinguna á þeim með túrisma? Því miður virðist stjórnkerfið ætla að leysa málin með því að leyfa öllum allt. Það er ekki hægt. Hvalaskoðun hefur á undanförnum árum gjörbreytt ásýnd þeirra staða þar sem hún er stunduð: það er magnað að koma til Húsavíkur og sjá uppbygginguna sem orðið hefur við höfnina kringum þennan geðfellda atvinnuveg - fyrir utan hitt, að slíkur leiðangur er ógleymanleg upplifun. Hvalveiðar gegna hins vegar fyrst og fremst táknrænu hlutverki. Eru partur af því að leika hinn þvermóðskufulla Íslending: heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu - og allt það. Þó að til séu karlmenn sem af einbeittri hugsjón og karlmennsku þræla í sig þessu þurra og óspennandi kjöti þá verður slíkt át ævinlega jaðarsport en þó varðar hitt mestu að hvalveiðar eru eitt megintákn þeirrar íslensku rányrkju sem Evrópa vill aldrei aftur sjá. Okkur ber nefnilega engin skylda til að drepa neitt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Ví heftú kill somþíng!" sagði hann kátur við sænska sjónvarpsmanninn í þættinum um makrílveiðar og rányrkju Íslendinga á þeim fiski. Svo skaut hann svífandi fugl og hamfletti hann á staðnum með fumlausum handtökum - mikið að hann stýfði fuglinn ekki úr hnefa líka. Þetta kom víst ekki alveg nógu vel út. Samt var hann bara þarna á bátnum sínum að sýna útlendingnum austfirsku dýrðina - fjöllin, himininn, hafið, fuglana og manninn: einingu þessa alls. Hann var að sýna útlendingnum að þetta væri Lífið; hér væri allt sem einn karlmaður þyrfti - hér væri hann kóngur. „Ví heftú kill somþíng," sagði hann kampakátur því nú átti að kóróna þessa dýrðarstund og sýna hvernig maður þyrfti ekki nema lyfta byssunni og miða vel og þá væri komin björg í bú. Hann var að sýna sig: sýna útlendingnum veiðimann í sínu náttúrulega umhverfi - íslenskt náttúrubarn, frum-Íslendinginn sem lifir á landsins gæðum, nýtir gjafir náttúrunnar. Hann var að leika Íslending. Það örlaði á ofleik en þó fór ekki á milli mála að hann ímyndaði sér að hann væri öfundsverður; gott ef ekki sjálfur draumur allra karlmanna, hann væri frjáls og lífið væri samfelldur veiðiskapur sem líður trallala frá einni bráð til annarrar. Sænski sjónvarpsmaðurinn sá hins vegar aðra sögu. Hann sá bara verksmiðjustjórann í fiskimjölsverksmiðjunni. Hann sá holdgerving óskynsamlegrar stundarnýtingar - þeirrar iðju að moka upp ólöglega dýrmætum matfiski og búa til úr honum ódýrt hráefni handa eldislaxi. Hann sá rányrkjugreifa sem getur ekki ódrepandi verið - getur ekki farið á fögrum degi út á sjó án þess að þurfa að plaffa á saklaust fuglsgrey, friðlaus af drápsfýsn. Hann sá Íslendinginn eins og þjóðir Evrópu gera. Hann sá íslenska karlmanninn sem hálfsturlaður óð frá einni bráð til annarrar, eins og fullur kall á balli. Allt er hér í samhengi: Icesave-reikningarnir voru rányrkja á sparifé almennings í Evrópu. Kaupin á grónum fyrirtækjum annarra samfélaga - fjármögnuð með glórulausum lánum sem íslenska þjóðin þarf að greiða - voru rányrkja á verðmætum. Hömlulaust athæfi hálfsturlaðra manna. Ví heftú kill somþíng: Makríl - sparifé - múkka. (Eða bara Jöklu: Kárahnjúkavirkjun var reist með því að veita svo miklu af henni í Lagarfljót að báðar árnar stórspillast og framburður Jöklu hættir að fara til hafs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir okkar gjöfulu fiskimið, svo fyllist lónið um síðir og landinu er spillt til einskis. ) Frá einni bráð til annarrar. Kannski er ofmælt að kalla Ísland veiðimannasamfélag, því að slík samfélög byggjast á sjálfbærri nýtingu á náttúrunni. Íslendingar hafa hins vegar ýmis einkenni hirðingjasamfélaga sem setja niður búðir sínar með búsmala sinn á gróna staði til bráðabirgða, beita skepnum sínum á landið uns þrautnagað er, halda svo af stað á nýjar lendur. Sumt í búsetuháttum Íslendinga bendir til að þeir séu alltaf á leiðinni eitthvert annað. En á meðan verður að drepa eitthvað - bara eitthvað. Allavega „ðe fokking veils," eins og maðurinn í myndinni sagði: hvalir eru orðnir tákn þess sem bara hreinlega verður að drepa. Stundum gæti maður haldið að hvalir séu erfðafjendur Íslendinga, og frásagnir af gegndarlausu fiskáti þeirra eru slíkar að maður skilur eiginlega ekki hvernig þorskurinn - sem er ekki skepna skýr - fór eiginlega að því að lifa öll þessi árþúsund þegar engar hvalveiðar voru hér við land. Og nú er tekist á um langreyðar og hrefnur. Á að halda áfram rányrkjunni og hneyksla þjóðir heims - eða nýta þekkinguna á þeim með túrisma? Því miður virðist stjórnkerfið ætla að leysa málin með því að leyfa öllum allt. Það er ekki hægt. Hvalaskoðun hefur á undanförnum árum gjörbreytt ásýnd þeirra staða þar sem hún er stunduð: það er magnað að koma til Húsavíkur og sjá uppbygginguna sem orðið hefur við höfnina kringum þennan geðfellda atvinnuveg - fyrir utan hitt, að slíkur leiðangur er ógleymanleg upplifun. Hvalveiðar gegna hins vegar fyrst og fremst táknrænu hlutverki. Eru partur af því að leika hinn þvermóðskufulla Íslending: heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu - og allt það. Þó að til séu karlmenn sem af einbeittri hugsjón og karlmennsku þræla í sig þessu þurra og óspennandi kjöti þá verður slíkt át ævinlega jaðarsport en þó varðar hitt mestu að hvalveiðar eru eitt megintákn þeirrar íslensku rányrkju sem Evrópa vill aldrei aftur sjá. Okkur ber nefnilega engin skylda til að drepa neitt.