Körfubolti

Isiah laug því að ég væri hommi eða tvíkynhneigður

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Magic og Bird skrifuðu bók saman.
Magic og Bird skrifuðu bók saman.

Vinskapur þeirra Magic Johnson og Isiah Thomas er á enda. Isiah fær vænar sneiðar frá Magic í nýrri bók eftir Magic og Larry Bird. Thomas segist vera búinn að fá nóg og hann mun ekki tala aftur við Magic.

„Ég er virkilega sár og finnst eins og Magic hafi notað mig í mörg ár. Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu. Í hvert skipti sem ég hef hitt Magic hefur farið vel á með okkur og við farið saman í mat. Ég vissi ekki að honum liði svona," sagði Thomas um viðbrögð sín við því sem kemur fram í bókinni sem fer í sölu í byrjun nóvember.

Ein elsta slúðursagan í NBA-deildinni er sú hver hafi borið út slúðursögur um að Magic væri hommi eftir að hann greindist með alnæmi árið 1991. Magic segir að það hafi verið Isiah. Hann hafi dreift þeim orðrómi að Magic væri annað hvort hommi eða tvíkynhneigður.

Magic talar einnig um annað viðkvæmt mál er varðar fyrsta Draumaliðið árið 1992. Magic viðurkennir að hafa verið í slagtogi með Michael Jordan og fleirum um að útiloka Thomas frá liðinu.

„Isiah eyðilagði sjálfur sína möguleika á að komast í liðið. Það vildi enginn í liðinu spila með honum. Michael vildi ekki spila með honum. Scottie Pippen vildi ekki sjá hann. Bird var ekki að mæla með honum. Karl Malone vildi ekki sjá hann. Hver var að biðja um hann? Enginn," segir Magic í bókinni.

Isiah fagnar þessari yfirlýsingu Magic. Hann segir gott að vita að það hafi verið Magic sem hafi staðið á bakvið þetta mál og hann ásakar Magic um að hafa látið Jordan taka hitann af málinu enda hafi flestir kennt honum um í öll þessi ár.

„Ég vildi samt að Magic hefði haft pung í að segja þessa hluti við mig sjálfan í stað þess að setja þetta í einhverja helvítis bók sem hann getur grætt á," sagði Thomas sár.



 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×