Körfubolti

Vujacic bauðst betri samningur í Evrópu

Sasha Vujacic átti ágæta leiktíð með Lakers í vetur sem leið
Sasha Vujacic átti ágæta leiktíð með Lakers í vetur sem leið NordcPhotos/GettyImages

Slóveninn Sasha Vujacic framlengdi samning sinn við Los Angeles Lakers á dögunum. Hann fullyrðir að sér hafi borist talsvert hærri samningstilboð frá félögum í Evrópu, en hann kaus að vera áfram í herbúðum Lakers.

Hinn 24 ára gamli Vujacic fékk að lokum þriggja ára samning við Lakers sem mun færa honum um 15 milljónir dollara í laun.

"Sasha fékk bitastæðari tilboð frá Evrópu, ekki síst þegar tekið er mið af skattamálunum, en hann vildi sem betur fer halda áfram hjá okkur. Hann er góður leikmaður og við vonum að hann haldi áfram að bæta sig," sagði Mitch Kupchak, framkvæmdastjóri Lakers.

Lakers-liðið náði alla leið í lokaúrslitin í NBA í sumar þar sem liðið tapaði fyrir Boston, en framtíðin virðist vera nokkuð björt á þeim bænum þar sem félagið hefur nú náð samningum við alla lykilmenn. Þá er reiknað með því að miðherjinn Andrew Bynum nái fullri heilsu eftir að hafa meiðst illa í janúar og misst af úrslitakeppninni.

Félög í Evrópu virðast nú vera orðin fjársterkari en áður og farið er að bera á því að bandarískir leikmenn, sem og Evrópubúar sem leikið hafa í NBA - séu farnir að leita til Evrópu í feita samninga.

Nýlegt dæmi um það er Josh Childress hjá Atlanta Hawks, en hann féllst á að skrifa undir samning við gríska félagið Olympiakos. Þar fékk hann einfaldlega hærri samning en í boði var í NBA deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×