Menning

Himinn, haf og land

Eitt af verkum Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur.
Eitt af verkum Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur.

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir opnar málverkasýninguna Landsmót í Gallerí Ormi í Sögusetrinu á Hvolsvelli á laugardag. Á sýningunni má sjá 24 olíumyndir af landslagi þar sem gjarnan mætast himinn, haf og land.

Myndirnar eru margar málaðar með náttúruna í Fljótshlíðinni og nágrenni í huga þótt þær séu yfirleitt ekki af vandlega tilgreindum stöðum.

Fljótshlíðin hefur löngum verið íslenskum myndlistarmönnum hugleikin. Fljótshlíðingurinn Nína Sæmundsson jók hróður Íslands víða um lönd.

Ólafur Túbals í Múlakoti var kunnur listmálari og í Múlakoti dvöldu bæði Ásgrímur Jónsson og Gunnlaugur Scheving við listsköpun. Jóhannes Kjarval lagði einnig oft leið sína í Fljótshlíðina. Þá hefur Jón Kristinsson, Jóndi í Lambey, lengi haldið uppi merki sveitarinnar og rekið þar gallerí og frá Kirkjulæk í Fljótshlíð er listakonan María Jónsdóttir.

Sýningin Landsmót er níunda einkasýning Hrafnhildar Ingu en hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum hér heima og erlendis undanfarin ár. Um þessar mundir stendur einnig yfir sýning á verkum hennar í Gallery More North í New York.

Hrafnhildur Inga er fædd og uppalin á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð.

Hún stundaði myndlistarnám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þaðan prófi í grafískri hönnun. Þá hefur hún stundað nám við Myndlistarskóla Kópavogs og dvalið að Skriðuklaustri og í Róm við nám og listsköpun. Sýningin Landsmót stendur til 24. ágúst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.