Körfubolti

100 þrefaldar tvennur hjá Jason Kidd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kidd tekur eitt af tíu fráköstum sínum í nótt.
Kidd tekur eitt af tíu fráköstum sínum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Jason Kidd náði í nótt sinni 100. þrefaldri tvennu og þeirri fyrstu síðan hann gekk aftur til liðs við Dallas Mavericks í vetur.

Kidd skoraði 27 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar í sigri Dallas á New Orleans í nótt. Sigurinn tryggði Dallas sjöunda sætið í Vesturdeildinni en liðið mætir einmitt New Orleans í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Kidd er aðeins þriðji leikmaðurinn í NBA-deildinni sem nær þessum áfanga en hinir eru Oscar Robertson sem náði 181 þrefaldri tvennu á sínum ferli og Magic Johnson sem náði 138 slíkum.

„Það góða er að Dirk (Nowitzky) er með eina þrefalda tvennu. Ég hef því forskot á hann," sagði Kidd. „En hann sagði mér að þetta væri allt að koma hjá honum."

„En Oscar og Magic eru menn sem breyttu íþróttinni. Ég er mjög ánægður með að vera í sama félagsskap og þeir."

Næstir á listanum eru Wilt Chamberlain sem náði 78 þreföldum tvennum og Larry Bird með 59.

Kidd er á öðru sæti yfir flestar þrefaldar tvennur í úrslitakeppninni með ellefu talsins. Magic er efstur á þeim lista með 30.

Þetta var þrettánda þrefalda tvennan hjá Kidd á tímabilinu og er það persónulegt met hjá honum. Í fyrra náði hann tólf slíkum og var það í fyrsta skiptið sem hann náði meira en tíu þreföldum tvennum á sama tímabilinu.

Á sínu fyrsta tímabili, 1994-95, náði hann fjórum þreföldum tvennum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×