Körfubolti

Nowitzki er til í launalækkun

Dirk Nowitzki hefur gott skopskyn eins og sjá má á þessari mynd
Dirk Nowitzki hefur gott skopskyn eins og sjá má á þessari mynd

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki hjá Dallas Mavericks í NBA deildinni segist vera tilbúinn að taka á sig launalækkun þegar samningi hans lýkur eftir tvö ár ef það þýði að félagið geti bætt við sig gæðaleikmönnum.

Samningur Þjóðverjans kemur til endurskoðunar eftir næstu leiktíð, en árið eftir ætti hann möguleika á að þéna rúma 21 milljón dollara.

Árið 2010 verður stórt ár í NBA deildinni þegar menn á borð við LeBron James, Dwyane Wade, Chris Bosh, Amare Stoudemire og Joe Johnson verða með lausa samninga.

"Öll liðin í deildinni stefna á að hafa pláss undir launaþakinu þetta ár til að geta náð sér í góða leikmenn. Ég er það heppinn að hafa unnið mér inn mikla peninga í þessari deild þó ég hafi aldrei spilað fyrir peninga. Ég elska leikinn og félagið mitt og vil auðvitað vinna titil," sagði Nowitzki, sem var kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar árið 2006.

"Ég hef verið kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar og nú vantar mig bara meistaratitil. Ef það þýðir að ég þurfi að spila fyrir minni peninga, þá er ég alveg opinn fyrir því," sagði Nowitzki í samtali við Dallas Morning News.

Eigandi Mavericks, Mark Cuban, er ánægður með orð leikmannsins og fagnar yfirlýsingum hans.

"Dirk er Dirk. Hann er maður sem spilar fyrir liðið og einstakur maður. Við höfum alist upp hjá þessu félagi saman og höfum alltaf reynt að vera á sömu blaðsíðunni á allan hátt," sagði eigandi félagsins.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×