Tónlist

Náttsöngvar í Skálholti

Skálholtskirkja Hýsir áhugaverða tónleika í kvöld og um helgina.
Skálholtskirkja Hýsir áhugaverða tónleika í kvöld og um helgina.

Tónlistarhátíðin í Skálholti heldur áfram með glæsilegu tónleikahaldi. Sönghópurinn Hljómeyki treður upp í kirkjunni í kvöld kl. 20 og verður þá mikið um dýrðir. Hópurinn flytur Náttsöngva Rachmaninovs, en um er að ræða eitt af sannkölluðum stórvirkjum tónbókmenntanna. Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson, en eins og lesendur Fréttablaðsins muna væntanlega stýrði hann söngvurunum til sigurs í kórakeppni í Frakklandi nú í vor.

Tónleikarnir eru tvískiptir og eftir hlé mun þýski Ishum-kvartettinn flytja strengjakvartett eftir Giuseppe Verdi. Ishum-kvartettinn skipa Lisa Immer og Elfa Rún Kristinsdóttir á fiðlur, Adam Römer á víólu og Michael Römer á selló.

Staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti að þessu sinni er Sveinn Lúðvík Björnsson, en á laugardag kl. 14 flytja Ishum-kvartettinn, Hljómeyki, Þóra Margrét Sveinsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari nokkur verk eftir Svein, en jafnframt verður frumflutt nýtt verk sem nefnist Missa brevis. Seinna sama dag, kl. 17, leikur Ishum-kvartettinn verk eftir Luigi Boccherini, Giovanni Sollima og W.A. Mozart.

Á sunnudag kl. 15 kemur Ishum-kvartettinni enn einu sinni fram og leikur þá tónlist eftir W.A. Mozart, Heinz Hollig­er og Ludwig van Beethoven. Missa brevis verður svo endurflutt í guðsþjónustu í kirkjunni kl. 17 á sunnudag.- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.