Viðskipti innlent

Björgólfur selur í Finnlandi fyrir 26 milljarða - ánægður með verðið

Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur selt hlut sinn í finnska símafyrirtækin Elisa. Kaupandi er Varma, eitt umsvifamesta séreignasparnaðarfyrirtæki Finnlands. Kaupverð nemur um 200 milljónum evra, jafnvirði 26,5 milljörðum króna. Talsmaður Björgólfs er ánægður með verðið sem fékkst fyrir hlutinn.

Novator átti tíu prósenta hlut í Elisu. Björgólfur á enn fimm prósent í Elisu í eigin nafni.

Elisa er næststærsta símafyrirtæki Finnlands. Novator var stærsti hluthafinn en nú hefur Varma, sem situr á tólf prósentum í fyrirtækinu, tekið sætið.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs, segir söluna vissulega vera viðbrögð við aðstæðum. „Við erum að bregðast við mjög erfiðum aðstæðum á fjármagnsmörkuðum og sérstaklega eru þetta viðbrögð við því að viðhorf gagnvart íslendingum erlendis er andstætt okkur. Það bitnar ekki síður á félögum sem hafa ósköp lítið með ísland að gera, eins og í tilviki Elisa.“

„En við erum ánægðir,“ segir Ásgeir og bendir á að verðið sé mjög gott. „Þetta er verð á markaði fyrir helgi og við erum ekki að tapa peningum í þessum viðskiptum. Við erum hins vegagr að styrkja stöðu Novators til þess að halda þétt við önnur fyrirtæki sem við eru fjárfestar í,“ segir Ásgeir að lokum og segir frekari samninga um sölu á hlutum Novators ekki vera í farvatninu þessa stundina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×