Myndlist er helvíti Hallgrímur Helgason skrifar 17. maí 2008 07:30 Listahátíð er hafin með myndlist í öndvegi. En listin er ekki bara hátíð. Hún er helvíti líka. Myndlistarmaðurinn er einn í heiminum. Að morgni gengur hann inn í myrkur og dvelur þar daglangt, þar til „veruleikinn" dregur hann út að kvöldi: Úr myrkri í myrkur. Enginn getur ímyndað sér átakið sem felst í því að leggja frá sér pensil í lok vinnudags. (Fyrir myndlistarmanni er hugtakið „lok vinnudags" reyndar bara djók.) Að stíga út úr eigin heimi og inn í hinn er eins og að stíga aftur inn í móðurskaut. Ekki auðveld aðgerð. Gagnvart tröllaverund listarinnar er veruleikinn hjóm eitt. Hverjum sárnar ekki að sjá slíkt orð hanga um háls sinna nánustu? Myndlist er helvíti. Enginn getur ímyndað sér þjáninguna sem fylgir því að horfa upp á óskapnað í sköpun, hið skelfilega ókláraða verk, hið nakta sjálf. „Óviðkomandi aðgangur bannaður!" er setning sem stendur skrifuð utan á allar vinnustofur heimsins. Sérhver listamaður þekkir sálarangistina sem fylgir verki á vinnslustigi. En aðeins örfáir höndla hana. Þess vegna hafa menn fundið ýmsar aðferðir til að forða sér frá henni. Ein leiðin er hönnuð list. Þú hannar frá þér vandann, girðir fyrir allar kvalir með gljáfægðu yfirborði. Önnur leið er stjörnulist. Þú slærð í gegn og slærð þar með á mesta sársaukann. Í stað þess að grafa dýpra reynirðu stöðugt „að toppa" sjálfan þig. Þriðja leiðin er snilldarmálverkið. Þú ert í raun búinn með verkið áður en þú byrjar á því. Allt sem þú gerir er frábært og fyrsta pensilstrokan gæti verið sú síðasta. Ekkert getur klikkað. Enn ein leiðin er konseptið. Hugmyndin svo skotheld að engin þjáning, enginn efi kemst að. Svo er það lokalausnin: Að loka vinnustofunni og gerast CV-listamaður sem situr heima, horfir á sjónvarp og bíður eftir því að síminn hringi inn sýningartilboðin. Nokkrum vikum síðar ertu mættur til Eistlands og byrjaður að vinna verkið, í rými með öðrum CV-listamönnum, þar sem allir neyðast auðvitað til að vera hressir, þjáningar vítis eru víðs fjarri og partýið því alltaf betra en sýningin. Myndlist dagsins er eins langt frá helvíti og hugsast getur. Hún er í sjöunda himni. Aðeins þeir allra hörðustu halda áfram að feta dimman dal hinnar sönnu listar. Og aðeins örfáir þeirra eru miklir listamenn. Sem gerir vítisvistina enn erfiðari. Þú veist aldrei nema streð þitt sé til einskis. Sérhver vinnustofa heimsins er full af einskis nýtum verkum sem kostuðu miklar kvalir. Löngunin til að brenna allt heila klabbið er aldrei lengra undan en eldspýtustokkurinn í glugganum. Og við hlið hans stendur flaskan full af því sem slegið getur á það versta. Brennivínið! Besti vinur listamannsins. Ekki er á allra færi að starfa í helvíti en búa í himnaríki. Aðeins þeim öguðustu tekst það. Halldór, Gunnar, Guðbergur. Hinir eru fleiri sem tókst það ekki. Jónas, Kjarval, Steinn, Steinar, Sverrir, Dagur, Biggi. Aðeins hörðustu andans jöfrum tekst að koma fjölskylduböndum á sitt listræna helvíti. Og aðeins mestu kraftaverkamenn í þeim hópi eru færir um að opna gluggaumslag í miðju andríkiskasti. Nóbelshöfundurinn Isaac Bashevis Singer fórnaði heilu herbergi í íbúð sinni fyrir óopnaðan póst. Á morgun verður opnuð í Listasafni Árnesinga sýning á verkum Magnúsar Kjartanssonar sem lést árið 2006. Magnús var einn af okkar bestu listamönnum en þáði einungis skamma stund í því ísbjarta kúli sem listheimurinn kallar velgengni áður hann hvarf inn í dimmu þá sem dýptinni fylgir. Magnús vann jafnvel mörg sín bestu verk í myrkri, í bókstaflegri merkingu orðsins. Á níunda áratugnum „málaði" hann einkum á ljósnæman pappír, varpaði á hann skugga sínum og svörtu handafari; stimpli myrkrar sálar. Leið Magnúsar úr helvíti lá með Kristi inn eftir Kirkjusandi; í röð magnaðra málverka sem þessi misserin má sjá í Grafarvogskirkju, verk sem voru að sönnu máluð í björtu en fjalla því meir um myrkrið. Himnaríki náði Magnús Kjartansson löngu fyrir dauðann; þegar hann gekk út úr vinnustofu sinni árið 2000 og hætti að mála, var útskrifaður úr helvíti. Listin er harður húsbóndi. Margir eru fljótir úr þeirri vist. En Magnús skilaði sínu. Við skulum minnast hans. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Mest lesið Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun 24. janúar og risastórt vistspor Íslands Stefán Jón Hafstein Skoðun Bókhaldsbrellur blekkja dómstóla Björn Thorsteinsson Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Sagan um gardínurnar Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Alþjóðlegur dagur menntunar – Framhaldsfræðslan, fimmta stoð menntunar Guðjónína Sæmundsdóttir Skoðun
Listahátíð er hafin með myndlist í öndvegi. En listin er ekki bara hátíð. Hún er helvíti líka. Myndlistarmaðurinn er einn í heiminum. Að morgni gengur hann inn í myrkur og dvelur þar daglangt, þar til „veruleikinn" dregur hann út að kvöldi: Úr myrkri í myrkur. Enginn getur ímyndað sér átakið sem felst í því að leggja frá sér pensil í lok vinnudags. (Fyrir myndlistarmanni er hugtakið „lok vinnudags" reyndar bara djók.) Að stíga út úr eigin heimi og inn í hinn er eins og að stíga aftur inn í móðurskaut. Ekki auðveld aðgerð. Gagnvart tröllaverund listarinnar er veruleikinn hjóm eitt. Hverjum sárnar ekki að sjá slíkt orð hanga um háls sinna nánustu? Myndlist er helvíti. Enginn getur ímyndað sér þjáninguna sem fylgir því að horfa upp á óskapnað í sköpun, hið skelfilega ókláraða verk, hið nakta sjálf. „Óviðkomandi aðgangur bannaður!" er setning sem stendur skrifuð utan á allar vinnustofur heimsins. Sérhver listamaður þekkir sálarangistina sem fylgir verki á vinnslustigi. En aðeins örfáir höndla hana. Þess vegna hafa menn fundið ýmsar aðferðir til að forða sér frá henni. Ein leiðin er hönnuð list. Þú hannar frá þér vandann, girðir fyrir allar kvalir með gljáfægðu yfirborði. Önnur leið er stjörnulist. Þú slærð í gegn og slærð þar með á mesta sársaukann. Í stað þess að grafa dýpra reynirðu stöðugt „að toppa" sjálfan þig. Þriðja leiðin er snilldarmálverkið. Þú ert í raun búinn með verkið áður en þú byrjar á því. Allt sem þú gerir er frábært og fyrsta pensilstrokan gæti verið sú síðasta. Ekkert getur klikkað. Enn ein leiðin er konseptið. Hugmyndin svo skotheld að engin þjáning, enginn efi kemst að. Svo er það lokalausnin: Að loka vinnustofunni og gerast CV-listamaður sem situr heima, horfir á sjónvarp og bíður eftir því að síminn hringi inn sýningartilboðin. Nokkrum vikum síðar ertu mættur til Eistlands og byrjaður að vinna verkið, í rými með öðrum CV-listamönnum, þar sem allir neyðast auðvitað til að vera hressir, þjáningar vítis eru víðs fjarri og partýið því alltaf betra en sýningin. Myndlist dagsins er eins langt frá helvíti og hugsast getur. Hún er í sjöunda himni. Aðeins þeir allra hörðustu halda áfram að feta dimman dal hinnar sönnu listar. Og aðeins örfáir þeirra eru miklir listamenn. Sem gerir vítisvistina enn erfiðari. Þú veist aldrei nema streð þitt sé til einskis. Sérhver vinnustofa heimsins er full af einskis nýtum verkum sem kostuðu miklar kvalir. Löngunin til að brenna allt heila klabbið er aldrei lengra undan en eldspýtustokkurinn í glugganum. Og við hlið hans stendur flaskan full af því sem slegið getur á það versta. Brennivínið! Besti vinur listamannsins. Ekki er á allra færi að starfa í helvíti en búa í himnaríki. Aðeins þeim öguðustu tekst það. Halldór, Gunnar, Guðbergur. Hinir eru fleiri sem tókst það ekki. Jónas, Kjarval, Steinn, Steinar, Sverrir, Dagur, Biggi. Aðeins hörðustu andans jöfrum tekst að koma fjölskylduböndum á sitt listræna helvíti. Og aðeins mestu kraftaverkamenn í þeim hópi eru færir um að opna gluggaumslag í miðju andríkiskasti. Nóbelshöfundurinn Isaac Bashevis Singer fórnaði heilu herbergi í íbúð sinni fyrir óopnaðan póst. Á morgun verður opnuð í Listasafni Árnesinga sýning á verkum Magnúsar Kjartanssonar sem lést árið 2006. Magnús var einn af okkar bestu listamönnum en þáði einungis skamma stund í því ísbjarta kúli sem listheimurinn kallar velgengni áður hann hvarf inn í dimmu þá sem dýptinni fylgir. Magnús vann jafnvel mörg sín bestu verk í myrkri, í bókstaflegri merkingu orðsins. Á níunda áratugnum „málaði" hann einkum á ljósnæman pappír, varpaði á hann skugga sínum og svörtu handafari; stimpli myrkrar sálar. Leið Magnúsar úr helvíti lá með Kristi inn eftir Kirkjusandi; í röð magnaðra málverka sem þessi misserin má sjá í Grafarvogskirkju, verk sem voru að sönnu máluð í björtu en fjalla því meir um myrkrið. Himnaríki náði Magnús Kjartansson löngu fyrir dauðann; þegar hann gekk út úr vinnustofu sinni árið 2000 og hætti að mála, var útskrifaður úr helvíti. Listin er harður húsbóndi. Margir eru fljótir úr þeirri vist. En Magnús skilaði sínu. Við skulum minnast hans.
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Alþjóðlegur dagur menntunar – Framhaldsfræðslan, fimmta stoð menntunar Guðjónína Sæmundsdóttir Skoðun
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Alþjóðlegur dagur menntunar – Framhaldsfræðslan, fimmta stoð menntunar Guðjónína Sæmundsdóttir Skoðun