Verðmiði á klúðrið Óli Kristján Ármannsson skrifar 24. september 2008 00:01 Stórtíðindi viðskiptalífsins á heimssögulega vísu hafa einkennt síðustu daga. Til þess að forða kreppu sem teygja myndi anga sína um heim allan búa stjórnvöld í Bandaríkjunum sig undir að taka á sig kostnað af stærðargráðu sem ekki hefur áður sést í uppkaupum á undirmálslánaskuldabréfavöndlum. Fyrir Bandaríkjaþingi liggur frumvarp um að afhenda Henry Poulson fjármálaráðherra þeirra ytra yfirráð yfir 700 milljörðum Bandaríkjadala. Ákvarðanir hans um meðferð fjárins eiga svo að vera hafnar yfir lög og rétt. Vissulega vakna þarna margar spurningar, bæði um alræðisvaldið sem afhenda á ráðherranum sem og um hvort björgunaraðgerðir þessar beri í sér gjaldþrot kapítalismans. Þeirri spurningu er erfitt að svara með afgerandi hætti. Ef til vill má segja að einhver kimi öfgafrjálshyggju hafi beðið skipbrot. Það kemur hins vegar ekki á óvart hér þar sem áhersla hefur verið á „stýrða markaðshyggju“ þar sem menn athafna sig innan afmarkaðra leikreglna. Vitanlega þarf að setja skorður við framferði á markaði. Þá verður að teljast til fyrirmyndar að Bandaríkjamenn taki á sig kostnaðinn af heimatilbúnu klúðri á fasteignalánamarkaði þar sem síður hefur verið horft til greiðslugetu skuldara, en undirliggjandi veða eigna sem lánað var út á. Veð hafa rýrnað og svo sýpur allur heimurinn seyðið af því hvernig fasteignasalar vestra fengu að leika lausum hala og afla sér umboðslauna eftirlitslaust með því að lána Pétri og Páli fyrirhafnarlítið gegn veði í ónýtum eignum og með löngum fresti á fyrstu greiðslum. Þessum tifandi tímasprengjum var svo vöndlað í áferðarfallegar skuldabréfapakkningar sem greiðsluhæfis- og matsfyrirtæki heimsins vottuðu svo í bak og fyrir sem gæðavöru. Hvort sem þessi reikningur nemur 500 eða 1.000 milljörðum Bandaríkjadala er ljóst að stjórnvöld vestra vilja fremur taka hann á sig og koma þar með í veg fyrir kreppu sem ekki sæi fyrir endann á. Almenningur er svo í aðstöðu til að meta umfang mistakanna sem gerð hafa verið, leita sökudólga og jafnvel draga til ábyrgðar. Líklegt má teljast að öfgafrjálshyggja glati vinsældum þegar afleiðingarnar blasa við með þessum hætti og er það vel. Öfga- og bókstafstrú er ekki líkleg til þess að auka hagsæld, sama hvar er. Betra að skynsemin fái að ráða. Hér höfum við við hins vegar búið við þannig kerfi að reikningur efnahagsmistaka dreifist með verðtryggingu á hækkandi skuldir landsmanna þegar verðbólga fer á skrið. Höggið verður hins vegar alla jafna ekki þannig að nái að raska ró launþegans, því mánaðarleg greiðslubyrði eykst ekki svo ýkja mikið. Ef til vill skýrir þetta að hluta langlundargeð kjósenda og ládeyðu sem oft virðist vera í stjórnmálalífinu. Aðstæður eru hins vegar um margt breyttar nú, þegar fjórðungur skulda heimilanna er í erlendri mynt og fyrirtækjanna að sjötíu prósentum. Sveiflur íslensks efnahagslífs svíða því sem aldrei fyrr og má furðu sæta ef ekki ágerast enn frekar áköll um bót og betrun. Nýjustu spár gera ráð fyrir því að krónan verði veik út næsta ár, og að jafnvel þótt takist að ná henni upp úr þeim metlægðum sem nú eru, þá komi gengi hennar til með að sveiflast mikið. Er hægt að sætta sig við það? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Stórtíðindi viðskiptalífsins á heimssögulega vísu hafa einkennt síðustu daga. Til þess að forða kreppu sem teygja myndi anga sína um heim allan búa stjórnvöld í Bandaríkjunum sig undir að taka á sig kostnað af stærðargráðu sem ekki hefur áður sést í uppkaupum á undirmálslánaskuldabréfavöndlum. Fyrir Bandaríkjaþingi liggur frumvarp um að afhenda Henry Poulson fjármálaráðherra þeirra ytra yfirráð yfir 700 milljörðum Bandaríkjadala. Ákvarðanir hans um meðferð fjárins eiga svo að vera hafnar yfir lög og rétt. Vissulega vakna þarna margar spurningar, bæði um alræðisvaldið sem afhenda á ráðherranum sem og um hvort björgunaraðgerðir þessar beri í sér gjaldþrot kapítalismans. Þeirri spurningu er erfitt að svara með afgerandi hætti. Ef til vill má segja að einhver kimi öfgafrjálshyggju hafi beðið skipbrot. Það kemur hins vegar ekki á óvart hér þar sem áhersla hefur verið á „stýrða markaðshyggju“ þar sem menn athafna sig innan afmarkaðra leikreglna. Vitanlega þarf að setja skorður við framferði á markaði. Þá verður að teljast til fyrirmyndar að Bandaríkjamenn taki á sig kostnaðinn af heimatilbúnu klúðri á fasteignalánamarkaði þar sem síður hefur verið horft til greiðslugetu skuldara, en undirliggjandi veða eigna sem lánað var út á. Veð hafa rýrnað og svo sýpur allur heimurinn seyðið af því hvernig fasteignasalar vestra fengu að leika lausum hala og afla sér umboðslauna eftirlitslaust með því að lána Pétri og Páli fyrirhafnarlítið gegn veði í ónýtum eignum og með löngum fresti á fyrstu greiðslum. Þessum tifandi tímasprengjum var svo vöndlað í áferðarfallegar skuldabréfapakkningar sem greiðsluhæfis- og matsfyrirtæki heimsins vottuðu svo í bak og fyrir sem gæðavöru. Hvort sem þessi reikningur nemur 500 eða 1.000 milljörðum Bandaríkjadala er ljóst að stjórnvöld vestra vilja fremur taka hann á sig og koma þar með í veg fyrir kreppu sem ekki sæi fyrir endann á. Almenningur er svo í aðstöðu til að meta umfang mistakanna sem gerð hafa verið, leita sökudólga og jafnvel draga til ábyrgðar. Líklegt má teljast að öfgafrjálshyggja glati vinsældum þegar afleiðingarnar blasa við með þessum hætti og er það vel. Öfga- og bókstafstrú er ekki líkleg til þess að auka hagsæld, sama hvar er. Betra að skynsemin fái að ráða. Hér höfum við við hins vegar búið við þannig kerfi að reikningur efnahagsmistaka dreifist með verðtryggingu á hækkandi skuldir landsmanna þegar verðbólga fer á skrið. Höggið verður hins vegar alla jafna ekki þannig að nái að raska ró launþegans, því mánaðarleg greiðslubyrði eykst ekki svo ýkja mikið. Ef til vill skýrir þetta að hluta langlundargeð kjósenda og ládeyðu sem oft virðist vera í stjórnmálalífinu. Aðstæður eru hins vegar um margt breyttar nú, þegar fjórðungur skulda heimilanna er í erlendri mynt og fyrirtækjanna að sjötíu prósentum. Sveiflur íslensks efnahagslífs svíða því sem aldrei fyrr og má furðu sæta ef ekki ágerast enn frekar áköll um bót og betrun. Nýjustu spár gera ráð fyrir því að krónan verði veik út næsta ár, og að jafnvel þótt takist að ná henni upp úr þeim metlægðum sem nú eru, þá komi gengi hennar til með að sveiflast mikið. Er hægt að sætta sig við það?