Sport

Tímabilið hugsanlega búið hjá Tom Brady

Tom Brady er hér hjálpað af velli í gær.
Tom Brady er hér hjálpað af velli í gær. Nordic Photos / Getty Images

Svo gæti farið að Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, verði frá það sem eftir lifir tímabilsins í NFL-deildinni. Hann meiddist illa á hné í sigri Patriots á Kansas City Chiefs í gær, 17-10.

Brady féll til jarðar eftir að hann var tæklaður af Bernard Pollard og mátti haltra af velli. Óttast er að hann hafi slitið krossbönd í hné en hann á eftir að fara í myndatöku til að fá það staðfest.

New England vann alla sextán leiki sína á tímabilinu fyrir úrslitakeppnina í fyrra en tapaði í úrslitunum, Super Bowl, fyrir New York Giants.

Bill Belichick vildi ekkert tjá sig um möguleikann á því að Brady myndi spila aftur á tímabilinu en sagði að hann hefði greinilega verið mjög þjáður.

Brady var kjörinn verðmætasti leikmaður NFL-deildarinnar í fyrra og gaf 50 sendingar fyrir snertimarki sem er met í deildinni. Það yrði því vitanlega mikið áfall fyrir Patriots að missa hann í svo alvarleg meiðsli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×