Fastir pennar

Nýtt skref

Þorsteinn Pálsson skrifar

Formenn stjórnarflokkanna hafa kallað til formlegra samtala við stærstu samtök launþega og atvinnufyrirtækja í landinu. Líta verður svo á að í þessu nýja skrefi felist ákvörðun um að leita eftir víðtækri samstöðu um stærstu viðfangsefni næstu missera. Í eldfimri stöðu var það tímabært.

Forysta Alþýðusambandsins hóf leikinn af sinni hálfu með kröfum um afsögn tiltekinna ráðherra. Með sanni verður ekki sagt að upphafsleikurinn sé hefðbundinn. Ríkisstjórnin má hins vegar ekki láta það setja sig út af laginu. Flestir skilja að forystumenn hennar láta ekki viðmælendur sína ákveða ráðherraskipan.

Hitt er annað mál að óvenjulegar aðstæður kalla á óhefðbundnar ákvarðanir. Í því ljósi gæti á næstu vikum verið hyggilegt af ríkisstjórnarforystunni að stokka upp og kalla nýja menn til að takast á við ný viðfangsefni. Það gæti verið til marks um staðfestu að baki áformum um að ná breiðri samstöðu um þau tröllauknu viðfangsefni sem glíma þarf við á næstunni. Traust á því sem koma skal skiptir einfaldlega meira máli en dómar um ábyrgð á því liðna.

Umfram allt annað er ljóst að endurreisa þarf traust á yfirstjórn peningamálanna. Að formi til er að vísu nóg að það traust byggist á afstöðu veitingavaldsins eins og sér. Í raunveruleikanum þarf sú afstaða hins vegar að njóta trausts í samfélaginu og á erlendum mörkuðum. Það verkefni verður ríkisstjórnin að leysa hratt.

Nái aðilar vinnumarkaðarins saman sín á milli um tillögugerð gagnvart stjórnvöldum eru meiri líkur á að leitin að samstöðu beri árangur. Engin umræðuefni má útiloka fyrirfram. Á endanum þurfa þó allir að vera fúsir að gefa eftir. Hins vegar má samstarfið ekki lenda í útideyfu málamiðlana. Það kemur fljótt í ljós hvort samtölin byggja á slíkri hugsun eða ekki.

Kjarni málsins er sá að ekki má dragast í margar vikur fram á næsta ár að varða þær leiðir sem ganga á eftir. Þróun kjaramálanna er eitt af lykilatriðunum. Þegar af þeirri ástæðu er samráðið brýnt. En það eru önnur stór viðfangsefni sem rétt er að leita eftir víðtækri samstöðu um.

Menn vitna gjarnan til þess að þjóðarbúskapurinn standi á traustum undirstöðum. Þær verða hins vegar ekki hagnýttar til viðspyrnu og nýrrar verðmætasköpunar meðan viðskiptabankar ríkisins og atvinnufyrirtækin njóta einskis lánstrausts erlendis. Jafnvel orkufyrirtækin eru lömuð til nýrrar sóknar. Þetta er veruleiki. Honum þarf að breyta. Það er viðfangsefni næstu vikna. Það kallar á samstöðu.

Sama má segja um ríkisfjármálapólitíkina fyrir næstu ár. Vandi þeirra sem lenda í mestum þrengingum með húsnæðislán getur trúlega orðið heitasta viðfangsefni þess samráðs sem nú er leitað. Evrópumálin eru á hinn veginn stærsta og hugsanlega um leið umræðufrekasta málið sem endurreisnin snýst um.

Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, hefur hvatt stjórnarflokkana til að lýsa því yfir að þeir hyggist starfa saman uns spurningin um Evrópusambandsaðildina er til lykta leidd. Það ákall fær örugglega góðan hljómgrunn. Trúin á framtíðina gæti styrkst í réttu hlutfalli við skjót viðbrögð við því. Það er því eðlilegt að sú spurning verði á dagskrá þess mikilvæga samráðs sem ríkisstjórnin gengur nú til við forystumenn launafólks og atvinnulífs.








×