Öngstræti Sjálfstæðisflokks Svanborg Sigmarsdóttir skrifar 14. ágúst 2008 06:00 Það leit ekki vel út fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gær þegar Óskar Bergsson margítrekaði að hann væri ekki virkur þátttakandi í þessum nýja farsa í borgarstjórn. Einna helst virtist það lýsa örvæntingu Sjálfstæðisflokksins í borginni að láta það berast að þeir ættu í óformlegum viðræðum við aðra flokka, án þess að hafa nokkuð öruggt í hendi. Ýmsir vildu meina að sögurnar hefðu bara átt að vera vopn gegn Ólafi F. Magnússyni til að fá hann til að verða leiðitamari í samstarfinu. Sem slíkt væri það mjög tvíbent vopn. Það gæti haft áhrif á Ólaf en á sama tíma haft neikvæð áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni. Ef ekkert yrði úr þessum viðræðum við aðra flokka myndi Sjálfstæðisflokkurinn í borginni líta út fyrir að vera enn veikara stjórnmálaafl en áður var talið - búinn að mála sig út í horn frá viðræðum við þrjá annars mögulega samstarfsflokka. Jafnframt myndi það leiða til þess að traust borgarbúa á núverandi meirihluta veiktist enn, og var það ekki beisið fyrir. Hvernig er hægt að treysta meirihlutanum þegar augsýnilega er ekki traust á milli borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F. Magnússonar? Sumum gæti það þótt veikleikamerki hjá Sjálfstæðisflokknum að standa að enn einum meirihlutanum í borginni. Miðað við óvinsældir þessa meirihluta og hvernig fylgið sópast af flokknum væri sá fórnarkostnaður lítill miðað við hvernig þróunin getur orðið með áframhaldandi samstarfi við Ólaf F. Vandamálið hefur bara verið að finna einhvern annan samstarfsaðila til að vinna með. Það er nánast útilokað að Óskar hefði samþykkt að verða þriðja hjólið í núverandi meirihluta. Bæði hefur andað köldu milli hans og Ólafs og Óskar hlýtur að vera búinn að reikna dæmið og sjá að samningsstaða hans snarminnkar við það að meirihlutinn haldi ekki á honum einum. Mögulegt er sjálfstæðismenn telji hvort eð er að þeirra pólitíska lífi sé lokið eftir þetta kjörtímabil og þeir hafi því engu að tapa, sama hversu oft er skipt um meirihluta. Að minnsta kosti sýnir ákvörðun Gísla Marteins Baldurssonar, að hverfa úr borgarmálunum í bili og fara í nám erlendis, að hann telji það ekki heppilegt að tengjast meirihlutanum nú. Hann hlýtur að meta það svo að með pínu fjarveru geti hann komið aftur endurnærður og minna flekkaður fyrir næstu kosningar, án þess að vera brennimerktur mistökum Sjálfstæðisflokksins í borginni á þessu kjörtímabili. Upphaf þessa nýjasta leikþáttar er könnun Capacent sem birt var fyrir síðustu helgi. Samkvæmt þeirri könnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað tveimur af hverjum fimm kjósendum frá síðustu kosningum. Fyrri greining flokksins um að vandamálið væri fyrrum oddvitinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, virðist ekki rétt. Að minnsta kosti jókst fylgið ekki með tilkomu Hönnu Birnu sem oddvita, eins og vonir flokksmanna stóðu til. Hún á enn eftir að stíga fram og sýna borgarbúum að hún sé oddviti. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Svanborg Sigmarsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Það leit ekki vel út fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gær þegar Óskar Bergsson margítrekaði að hann væri ekki virkur þátttakandi í þessum nýja farsa í borgarstjórn. Einna helst virtist það lýsa örvæntingu Sjálfstæðisflokksins í borginni að láta það berast að þeir ættu í óformlegum viðræðum við aðra flokka, án þess að hafa nokkuð öruggt í hendi. Ýmsir vildu meina að sögurnar hefðu bara átt að vera vopn gegn Ólafi F. Magnússyni til að fá hann til að verða leiðitamari í samstarfinu. Sem slíkt væri það mjög tvíbent vopn. Það gæti haft áhrif á Ólaf en á sama tíma haft neikvæð áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni. Ef ekkert yrði úr þessum viðræðum við aðra flokka myndi Sjálfstæðisflokkurinn í borginni líta út fyrir að vera enn veikara stjórnmálaafl en áður var talið - búinn að mála sig út í horn frá viðræðum við þrjá annars mögulega samstarfsflokka. Jafnframt myndi það leiða til þess að traust borgarbúa á núverandi meirihluta veiktist enn, og var það ekki beisið fyrir. Hvernig er hægt að treysta meirihlutanum þegar augsýnilega er ekki traust á milli borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F. Magnússonar? Sumum gæti það þótt veikleikamerki hjá Sjálfstæðisflokknum að standa að enn einum meirihlutanum í borginni. Miðað við óvinsældir þessa meirihluta og hvernig fylgið sópast af flokknum væri sá fórnarkostnaður lítill miðað við hvernig þróunin getur orðið með áframhaldandi samstarfi við Ólaf F. Vandamálið hefur bara verið að finna einhvern annan samstarfsaðila til að vinna með. Það er nánast útilokað að Óskar hefði samþykkt að verða þriðja hjólið í núverandi meirihluta. Bæði hefur andað köldu milli hans og Ólafs og Óskar hlýtur að vera búinn að reikna dæmið og sjá að samningsstaða hans snarminnkar við það að meirihlutinn haldi ekki á honum einum. Mögulegt er sjálfstæðismenn telji hvort eð er að þeirra pólitíska lífi sé lokið eftir þetta kjörtímabil og þeir hafi því engu að tapa, sama hversu oft er skipt um meirihluta. Að minnsta kosti sýnir ákvörðun Gísla Marteins Baldurssonar, að hverfa úr borgarmálunum í bili og fara í nám erlendis, að hann telji það ekki heppilegt að tengjast meirihlutanum nú. Hann hlýtur að meta það svo að með pínu fjarveru geti hann komið aftur endurnærður og minna flekkaður fyrir næstu kosningar, án þess að vera brennimerktur mistökum Sjálfstæðisflokksins í borginni á þessu kjörtímabili. Upphaf þessa nýjasta leikþáttar er könnun Capacent sem birt var fyrir síðustu helgi. Samkvæmt þeirri könnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað tveimur af hverjum fimm kjósendum frá síðustu kosningum. Fyrri greining flokksins um að vandamálið væri fyrrum oddvitinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, virðist ekki rétt. Að minnsta kosti jókst fylgið ekki með tilkomu Hönnu Birnu sem oddvita, eins og vonir flokksmanna stóðu til. Hún á enn eftir að stíga fram og sýna borgarbúum að hún sé oddviti.