Sport

Usain Bolt hefði hlaupið á 9,55

Leikrænir tilburðir Bolt vörpuðu nokkrum skugga á ótrúlegt heimsmet hans í Peking
Leikrænir tilburðir Bolt vörpuðu nokkrum skugga á ótrúlegt heimsmet hans í Peking AFP

Norskur eðlisfræðingur við Oslóarháskóla hefur reiknað það út að heimsmethafinn Usain Bolt frá Jamaíku hefði komið í mark á 9,55 sekúndum í 100 metra hlaupinu á Ólympíuleikunum í Peking ef hann hefði klárað hlaupið á fullum krafti.

Hans Eriksen staðfesti niðurstöðu sína í samtali við AP fréttastofuna og sagðist hafa viljað rannsaka hlaupið eftir að þjálfari Bolt fullyrti að hlauparinn hefði komið í mark á 9,52 sekúndum ef hann hefði ekki byrjað að fagna eins og óður maður löngu áður en hann kom í mark.

"Niðurstöður rannsókna okkar leiddu í ljós að hann hefði líklega komið í mark á milli 9,61 og 9,55 sekúndum. Við horfðum á úrslitahlaupið í sjónvarpinu og eyddum svo heilli helgi í að rannsaka hlaupið. Þetta var gert meira til gamans en hitt, en niðurstöðurnar hafa fengið meiri athygli en margt annað sem við höfum gert," sagði Eriksen.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×