Tónlist

Abba selst og selst

Sænsku poppararnir ásamt söngkonum sínum og um tíma eiginkonum á þeim tíma þegar frægð þeirra stóð sem hæst.
Sænsku poppararnir ásamt söngkonum sínum og um tíma eiginkonum á þeim tíma þegar frægð þeirra stóð sem hæst.
Diskur með sönglögum Benny Anderson og Björn Ulveaus úr kvikmyndinni Mamma mia! þaut upp Billboard-listann í vikunni sem leið og kom inn á listann í sjöunda sæti en myndin var frumsýnd vestanhafs hinn 11. júlí. Hefur þessum herrum ekki tekist eins vel í sölu áður. Abba Gold er líka stokkin upp listann en hún var á sínum tíma í tvö ár á listanum.

Velgengni laganna sem Benny Anderson stýrði nýjum upptökum á eykur verulega líkurnar á að þeim félögum takist að koma söngleik sínum eftir sögum Vilhelm Moberg, Kristínu frá Duvemala, á svið vestanhafs sem þeir hafa stefnt leynt og ljóst að um margra ára skeið.

Sölukippurinn og velgengni Mamma mia! vestanhafs glæða vonir um að Abba slái loksins í gegn í Ameríku sem þeim gekk aldrei þrátt fyrir sterka stöðu á flestum öðrum mörkuðum.

Mamma mia! situr nú í efsta sæti vinsældalistans í kvikmyndahúsum hér á landi en myndina höfðu ríflega 30 þúsund gestir séð eftir helgina. Athygli vekur að konur eru víða í miklum meirihluta gesta og fara í hópum, jafnvel fleiri en ein kynslóð. Þá er þegar tekið að gæta þess að ungir áhorfendur sjái myndina oftar en einu sinni.- pbb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.