Körfubolti

Arenas fær 8,6 milljarða samning

NordcPhotos/GettyImages

Skorarinn mikli Gilbert Arenas hjá Washington Wizards skrifaði í gærkvöld undir framlenginu á samningi sínum við félagið. Samningurinn er til sex ára og færir kappanum á níunda milljarð í tekjur.

Arenas samþykkti munnlega að framlengja við Wizards þann 3. júlí, en skrifaði undir í gær. Hann hafði áður lýst því yfir að hann myndi ekki framlengja við félagið nema það næði samningum við félaga hans Antawn Jamison, en það gerði félagið fyrir nokkru síðan.

Arenas átti reyndar möguleika á að fá enn stærri samning, en sló af launakröfum sínum til að skapa félaginu svigrúm á leikmannamarkaðnum.

"Ég held að við getum keppt við hvaða lið sem er í þessari deild og því hlakka ég til að snúa aftur til keppni á næsta tímabili þar sem við munum gera allt sem við getum til að krækja í meistaratitilinn," sagði Arenas brattur í yfirlýsingu frá félaginu.

Arenas er þrefaldur stjörnuleikmaður og er með tæp 23 stig að meðaltali í leik á ferlinum. Meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá honum á síðasta tímabili, þar sem hann missti úr 66 leiki og þurfti að sitja jakkaklæddur á bekknum í úrslitakeppninni.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×