Körfubolti

Grindavík og KR taplaus á toppnum

Páll Axel Vilbergsson er enn í miklu stuði hjá Grindavík
Páll Axel Vilbergsson er enn í miklu stuði hjá Grindavík
KR og Grindavík sitja á toppi Iceland Express deildarinnar í körfubolta eftir þrjár umferðir. Grindavík vann stórsigur á Tindastól 113-95 í uppgjöri tveggja taplausra liða og KR valtaði yfir Breiðablik 108-72 í Kópavogi.

Páll Axel Vilbergsson var áfram í miklu stuði hjá Grindavík og skoraði 27 stig og hitti mjög vel úr skotum sínum líkt og Þorleifur Ólafsson sem kom næstur með 26 stig. Brenton Birmingham skoraði 19 stig og Helgi Jónas Guðfinnsson 15. Arnar Freyr Jónsson gaf 12 stoðsendingar.

Hjá Stólunum voru Soren Flæng og Svavar Birgisson með 20 stig, Darrell Flake 18 stig og Ísak Einarsson og Halldór Halldórsson með 14 hvor.

KR var ekki lengi að gera út um leikinn gegn Blikum í Kópavogi og fengu lykilmenn liðsins fljótlega að hvíla eftir að hafa unnið fyrsta leikhlutann 35-19 og annan leikhlutann 32-11.

Jason Dourisseau skoraði 22 stig og hirti 7 fráköst fyrir KR á aðeins 13 leikmínútum. Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoraði 15 stig og Skarphéðinn Ingason og Ellert Arnarsson skoruðu 13 stig hvor.

Hjá Blikum var Kristján Sigurðsson atkvæðamestur með 16 stig og Nemanja Sovic 13 stig.

Þá vann Snæfell 88-71 sigur á Þór frá Akureyri á heimavelli sínum í Stykkishólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×