Sport

Sigur Obama vekur ólympíuvonir í Chicago

NordicPhotos/GettyImages

Sigur Barack Obama í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í gær er vatn á millu þeirra sem fara fyrir Ólympíunefnd Chicagoborgar. Borgin er ein þeirra sem sækist eftir því að halda Ólympíuleikana árið 2016.

"Augu heimsbyggðarinnar hafa verið á Barack Obama og þar af leiðandi á Chicago. Þau eiga líklega eftir að verða það áfram," sagði Patrick Ryan, sem fer fyrir Ólympíunefnd Chicago-borgar.

Obama hefur lengst af ferli sínum sem stjórnmálamaður haldið til í Chicago, en borgin er ein af fjórum borgum sem eru að sækjast eftir að fá að halda Ólympíuleikana árið 2016. Hinar borgirnar eru Tókíó í Japan, Ríó í Brasilíu og Madríd á Spáni.

Tilkynnt verður á næsta ári hvaða borg fær að halda leikana 2016, en þeir voru síðast haldnir í Bandaríkjunum árið 1996 þegar þeir fóru fram í Atlanta.

Ólympíunefndin í Chicago ætlar að reyna allt sem í hennar valdi stendur til að fá Obama í lið með sér til að tala fyrir hönd borgarinnar í baráttunni um leikana.

Menn eins og Tony Blair og Vladimir Putin hafa áður lagt inn gott orð fyrir Ólympíuleika í heimalöndum sínum. Blair var talinn gegna lykilhlutverki þegar London fékk leikana árið 2012 og þá þótti Putin vega mjög þungt þegar hann talaði fyrir vetrarleikunum sem haldnir verða í Sochi árið 2014.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×