Fastir pennar

2009

Björn Ingi Hrafnsson. skrifar

Óhætt er að slá því nú þegar föstu að það ár sem senn gengur í garð, muni verða eitt hið erfiðasta í sögu íslensku þjóðarinnar. Áföllin sem dunið hafa yfir á þessu ári hafa verið með eindæmum og langan tíma mun taka að byggja upp nýtt Ísland. Næsta ár mun leika þar algjört lykilhlutverk.

Í fyrsta lagi sýnist ljóst að Íslendingar munu annaðhvort ganga til alþingiskosninga á næsta ári í kjölfar stjórnarslita, eða þeir ganga til sögulegra viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Úrslitin munu ráðast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok næsta mánaðar, því formaður Samfylkingarinnar hefur tekið af öll tvímæli um að ríkisstjórnarsamstarfinu sé sjálfhætt ákveði samstarfsflokkurinn ekki að kúvenda í afstöðu sinni til ESB. Af sjálfu leiðir, að hvor atburðurinn um sig getur ráðið miklu um framtíð íslensku þjóðarinnar. Til breytinga í ríkisstjórn getur komið fyrr, jafnvel strax um áramótin og sömuleiðis í stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Ljóst er að atvinnuleysi mun aukast. Talið er að eitt til tvö hundruð manns missi nú vinnuna dag hvern og þúsundir á þúsundir ofan verði því án vinnu þegar líða tekur á næsta ár. Gefur auga leið, að þessum ört stækkandi hópi mun ekki reynast það leikur einn að standa undir síaukinni greiðslubyrði af lánum sínum, hvort sem þau eru gengistryggð eða vísitölubundin. Verðlag allt hefur hækkað, verðbólga er enn á uppleið, fjölmörg fyrirtæki berjast í bökkum og stjórnendur fyllast æ meira vonleysi.

Enginn veit hver þróunin verður í gengismálunum. Íslenska krónan hefur verið "sett á flot" sem kallað er og styrkst nokkuð síðan það gerðist, en margir telja það svikalogn og benda á að nær engin viðskipti séu að baki þessari þróun og höftin svo mikil að frelsi í fjármagnsflutningum eigi ekki lengur við. Heiðar Már Guðjónsson framkvæmdastjóri sagði raunar í Markaðnum á Stöð 2 á laugardag, að ekkert væri að marka gengi krónunnar nú; stjórnvöld og Seðlabanki gætu í raun gefið upp hvaða gengisvísitölu sem er og því miður stefndi íslenskt atvinnulíf í þrot ef haldið verði í þessu horfinu. Af þessum sökum eigi nú þegar að hefja undirbúning að upptöku nýs gjaldmiðils einhliða, sem sé tæknilega vel mögulegt og einstakir stjórnarmenn innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins myndu hafa velþóknun á.

Mörg atriði fleiri mætti nefna, nægir að nefna fjárlögin sem samþykkja þarf á næstu dögum og munu fela í sér gríðarlegan niðurskurð á öllum sviðum. Allir hljóta að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og mikilvægi þess að spara við sig hverja krónu til að sleppa við enn frekari lántökur erlendis á kostnað komandi kynslóða.Flest þeirra atriða sem hér hafa verið talin upp geta orðið afar sársaukafull fyrir landsmenn, jafnvel orðið til þess að margir missi aleigu sína og aðrir kjósi að freista gæfunnar annars staðar og flytja af landi brott.

Aðeins að því gefnu að unnið sé að raunhæfri framtíðarlausn, öllum landsmönnum til heilla, verður íslenska þjóðin sátt við endurreisnarstarfið og reiðubúin að taka höndum saman í uppbyggingunni. Fyrsta skrefið í þeim efnum er að segja alveg satt, horfast hreinskilnislega í augu við vandann og ráðast svo að rótum hans. Í þeim efnum þarf ekki að leita langt yfir skammt.








×